Verkís hf.

2022

Verkís er öflugt og framsækið ráðgjafarfyrirtæki sem býður upp á fyrsta flokks þjónustu á öllum sviðum verkfræði og tengdra greina. Fyrirtækið leggur áherslu á að veita vandaða og faglega þjónustu sem er samkeppnisfær við það sem best þekkist í heiminum.
Þjónusta Verkís er á eftirfarandi sviðum: Byggingar, samgöngur og skipulag, umhverfi og öryggi, verkefnastjórnun, raforkuvinnsla, raforkuflutningur, fjarskipti og upplýsingakerfi, veitur og iðnaður. Þjónustuflokkarnir skipta tugum.

Elsta verkfræðistofa landsins
Höfuðstöðvar Verkís eru að Ofanleiti 2 í Reykjavík. Verkís rekur fimm útibú á níu starfsstöðvum víða um land. Þær eru á Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum og Selfossi. Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 300 manns sem sinna fjölbreyttum verkefnum, bæði hér á landi og erlendis. Verkís hóf starfsemi árið 2008. Þá sameinuðust fimm eldri fyrirtæki úr sama geira; Fjarhitun, Fjölhönnun, RT – Rafagnatækni, Rafteikning og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen. Hin síðastnefnda rakti uppruna sinn til ársins 1932 og því hélt Verkís upp á 80 ára afmæli sitt árið 2012, elst allra verkfræðistofa á landinu. Almenna verkfræðistofan og Verkís sameinuðust síðan í apríl 2013 undir nafni Verkís.
Verkís er hlutafélag í eigu breiðs hóps starfsmanna og eru stjórn og helstu stjórnendur flestir úr hópi hluthafa. Framkvæmdastjóri Verkís er Egill Viðarsson. Stjórnarformaður er Helgi Þór Helgason og aðrir stjórnarmeðlimir eru Susanne Freuler, Snæbjörn Jónsson, Hugrún Gunnarsdóttir og Stefán Hjalti Helgason. Verkís rekur útibú í Noregi, Póllandi og í Úkraínu. Í Noregi á Verkís með samstarfsaðilum dótturfélagið OP-Verkís AS og á Grænlandi á Verkís með samstarfsaðilum dótturfélagið S&M Verkís Aps. Verkís og Bergrisi stofnuðu félagið Sanna landvætti í byrjun árs 2017. Markmið þess er að stuðla að uppbyggingu á ferðamannastöðum um allt land í samvinnu við fyrirtæki, landeigendur, sveitarfélög og ríki.

Fjölbreytt verkefni á erlendri grundu
Verkís hefur sótt fram á erlendum mörkuðum á síðustu árum. Hér eru nefnd nokkur þeirra verkefna. Sundhöllin Holmen í Asker í Noregi. Valin Bygging ársins 2017 í Noregi og eitt af 50 fyrirmyndarverkefnum FutureBuilt. Umhverfisvæn orka er í lykilhlutverki en nærri helmingi orkunnar sem notuð er við rekstur Holmen er aflað á lóð hennar með varmadælum, sólarrafhlöðum og sólarföngurum. Sundhöllin er talin setja ný viðmið um hönnun sundhalla í Noregi hvað varðar orkunotkun og vistvæna hönnun. Dariali virkjunin í Kákasusfjöllum í Georgíu. 108 MW vatnsaflsvirkjun er með jarðgöngum og stöðvarhúsi neðanjarðar. Sóttu Georgíumenn þekkinguna og reynsluna til Íslands. Verkís sá um alla hönnun virkjunarinnar í samstarfi við Landsvirkjun Power og hönnuði í Georgíu. Verkefnið opnaði Verkís dyr í Georgíu og mun fyrirtækið taka þátt í frekari uppbyggingu á innviðum landsins á næstu árum.
Álver Hydro í Karmøy í Noregi. Eitt það umhverfisvænsta í heiminum, en minni orku þarf við framleiðsluna en í öðrum álverum. Verkís tók þátt í hönnun, innkaupum og byggingu skautsmiðju og baðefnavinnslu, frá frumstigum verksins allt fram að afhendingu. Síðustu ár hefur Verkís unnið að hönnun og þróun stórra hitaveitna í Kína. Verkefnin ná til rúmlega 300 varmaskiptistöðva í 40 borgum. Uppsett afl er um 2.000 MW og talið er að yfir 2 milljónir manna njóti upphitunar frá þessum veitum. 
Verkís hefur einnig unnið töluvert að orkumálum í Afríku, til að mynda fyrir fyrirtækið KenGen sem rekur jarðgufuorkuver í Olkaria í Kenía. Um er að ræða margvíslegar greiningar og endurbótaverkefni. Uppsett afl orkuveranna er nú 533 MW en um 80 MW þessa afls kemur frá mörgum holutoppsvirkjunum sem Verkís hannaði fyrir Green Energy Geothermal.

Verkefni innanlands
Verkís sinnir fjölbreyttum verkefnum á innlendum markaði. Hér eru nefnd nokkur þeirra:
Stækkun Búrfellsvirkjunar. 100 MW vatnsaflsvirkjun með stöðvarhúsi neðanjarðar. Verkís sá um alla hönnunarvinnu á byggingarvirkjum ásamt hönnunarrýni á vél- og rafbúnaði og samræmingu fagsviða. Hönnunin var unnin samkvæmt BIM aðferðafræðinni.
Veröld, Hús Vigdísar. Verkís sá um alla verkfræðihönnun og vann verkefnið samkvæmt BIM aðferðafræðinni. Um er að ræða heildarhönnun á byggingu og lóð ásamt bílageymslu í kjallara og tengigangi við Háskólatorg undir Suðurgötu. Öll hönnun er unnin eftir svokölluðu BREEAM ferli, vottunarkerfi um vistvæna hönnun með það að leiðarljósi að ná einkunninni „very good“ samkvæmt vottunarkerfinu. Þeistareykjavirkjun. Um er að ræða 90 MW gufuaflsvirkjun, byggð í tveimur 45 MW áföngum. Verkís var aðalráðgjafi Landsvirkjunar við verkið ásamt Mannviti en stofurnar önnuðust fullnaðarhönnun virkjunarinnar og gufuveitunnar, ásamt gerð útboðsgagna og hönnunarrýni vélasamstæðna. Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Verkís hefur unnið að öllum helstu þáttum við alla byggingaráfanga flugstöðvarinnar auk stækkunar flughlaða.
Verkís hefur unnið mikið fyrir helstu orkufyrirtæki landsins og iðnfyrirtæki á sviði orkuflutnings einkum vegna tengivirkja og aðveitustöðva.

Jöfn laun, sömu tækifæri
Verkís hefur tvisvar hlotið Gullmerki PwC fyrir jafnlaunaúttekt en það þýðir að óútskýrður launamunur á grunn- og heildarlaunum karla og kvenna sé minni en 3,5%. Við úttektina 2012 var óútskýrður launamunur um 2% en innan við 1% árið 2018. Hjá Verkís er ýmislegt gert til að brjóta upp vinnuvikuna og efla liðsandann. Starfsmannafélagið er öflugt og stendur fyrir ýmsum viðburðum ásamt því að reka klúbbastarf þar sem fjölbreytt áhugamál starfsfólks fá að njóta sín. Verkís leggur áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun; jafnrétti kynjanna, sjálfbæra orku og sjálfbærar borgir og samfélag. Þá hefur Verkís einnig undirritað sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, eða UN Global Compact.
Nánari upplýsingar má nálgast inn á heimasíðunni: verkis.is.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd