Verkmenntaskóli Austurlands í Neskaupstað var stofnaður árið 1986 fyrir tilstuðlan bæjarstjórnar Neskaupstaðar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Þróun iðnskóla-náms má rekja aftur til ársins 1943 þegar Iðnskólinn í Neskaupstað tók til starfa, en hann var rekinn af Iðnaðarmannafélagi Neskaupstaðar fram til ársins 1955.
Á grundvelli iðnfræðslulaga 1966 var ákveðið að Iðnskóli Austurlands yrði í Neskaupstað, en það var ekki fyrr en haustið 1971 að skipaður var skólastjóri við skólann. Fram að því hafði Iðnskólinn verið rekinn í nánum tengslum við Gagnfræðaskóla Neskaupstaðar. Við Gagnfræðaskóla Neskaupstaðar hófst framhaldsnám 1960 og 1972 hófst kennsla 1. bekkjar menntadeildar. Árið 1977 hófst síðan fjölbrautarnám með áfangasniði við skólann.
Árið 1973 tekur til starfa samstarfsnefnd um fjölbrautanám í þeim tilgangi að samræma allt fjölbrautanám í Neskaupstað og á sama tíma er unnið að áætlun um framhaldsnám á Austurlandi af hálfu menntamálaráðuneytisins. Með samningi menntamálaráðuneytis og bæjarstjórnar Neskaupstaðar 1981 var síðan Framhaldsskólinn í Neskaupstað stofnaður og tók þá alfarið við starfsemi Iðnskóla Austurlands og Gagnfræðaskólans í Neskaupstað og skyldi vera kjarnaskóli iðn- og tæknimenntunar á Austurlandi.
Skólinn
Verkmenntaskóli Austurlands er framhaldsskóli sem starfar samkvæmt aðalnámskrá fram-haldsskóla, framhaldsskólalögum og öðrum lögum og reglugerðum sem snerta skólastarf á framhaldsskólastigi. Skólinn hefur að leiðarljósi þá grunnþætti menntunar sem tilteknir eru í Aðalnámskrá framhaldsskóla: Læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, heilbrigði og velferð ásamt sköpun. Verkmenntaskóli Austurlands er eini skólinn á austanverðu landinu sem gefur nemendum kost á að leggja stund á nám á iðn- og starfsnámsbrautum auk bóknámsbrauta. Þessi sérstaða skólans krefst þess að markvisst sé unnið að kynningu á því námi sem boðið er upp á. Í skólastarfinu er leitast við að veita góða kennslu, auka víðsýni nemenda, hvetja til gagnrýninnar og skapandi hugsunar, efla samvinnu og tillitssemi og hvetja til virðingar fyrir umhverfi og samfélagi. Jafnframt er lögð áhersla á að nemendum gefist tækifæri til þátttöku í heilbrigðu og þroskandi félagslífi. Þá vill skólinn veita nemendum stuðning eftir þörfum og sem fullkomnasta aðstöðu til náms og félagslegra athafna.
Einkunnarorð skólans eru: SAMVINNA – ÞEKKING –ÁRANGUR
Verkmenntaskóli Austurlands leggur mikla áherslu á góð tengsl við það samfélag sem hann starfar í og það atvinnulíf sem hann þjónar. Markmið skólans er að bjóða upp á menntun sem gagnast samfélaginu sem hann er hluti af. Almenn menntun sem boðið er upp á í skólanum tekur mið af þeim grunnþáttum sem tilteknir eru í Aðalnámskrá framhaldsskóla og nýtast þeir nemendunum í daglegu lífi og í þátttöku þeirra í samfélaginu. Skólinn leggur rækt við að fylgjast með þróun samfélags og atvinnulífs og metur á grundvelli hennar hvort ástæða sé til að gera breytingar á námsframboði.
Nærsamfélagið og samstarf
Verkmenntaskóli Austurlands vill í auknum mæli taka þátt í málefnum nærsamfélagsins auk þess sem samfélagsþróunin á öllu starfssvæði skólans hefur áhrif á námsframboð hans og námsskipulag. Þá gefur tækni nútímans og alþjóðlegt samstarf skólanum kleift að taka þátt í verkefnum með fulltrúum framhaldsskóla annarra þjóða. Skólinn hefur verið virkur í Erasmus+ samstarfi frá árinu 2016.
Áherslur
Skólinn leggur rækt við að undirbúa alla nemendur sína sem best fyrir þátttöku í lýðræðislegu samfélagi og á vettvangi atvinnulífs. Skólinn sjálfur á að endurspegla samfélagið og innan veggja hans eiga að ríkja samsvarandi lögmál og almennt ríkja þar. Í starfi sínu leggur skólinn áherslu á sjálfbærni og nýsköpun, en sjálfbærni- og nýsköpunarmenntun gerir fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis og félagslegra- og efnahagslegra þátta í þróun samfélagsins.
Námið
Námsframboð við Verkmenntaskóla Austurlands er afar fjölbreytt. Námið er allt í boði í dagskóla fyrir utan sjúkraliðanámið og námsbrautir fyrir leikskólaliða og stuðningsfulltrúa. Sjúkraliðanámið í VA er kennt í samvinnu við tvo aðra framhaldsskóla, FNV og MÍ, og er hluti af samstarfi innan Fjarmenntaskólans. Ein iðnnámsdeild skólans er í boði í bæði dagskóla og dreifnámi en það er rafiðndeildin. Þar er fagbóklegt nám í boðið í gegnum netið og vinnustofur fyrir verklegan þátt námsins í boði utan dagvinnutíma þrisvar í viku.
Skólaárið 2020-2021 eru starfræktar við skólann eftirfarandi brautir:
Í VA hefur frá árinu 2014 verið starfrækt Fab Lab smiðja
Fab Lab er stytting á enska heitinu ,,fabrication laboratory” og er stundum kallað stafræn smiðja á íslensku. Markmið með smiðjunni er að hvetja nemendur, einstaklinga og frumkvöðla til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika, skapa tækifæri til vinnu við frumgerðasmíð og vöruþróun með því að bjóða upp á aðgang að stafrænum framleiðslutækjum og búnaði af ýmsum toga. Rekstur smiðjunnar styður vel við brautir skólans og þá ekki síst verknámsbrautirnar.
Mannauður
Skólaárið 2020-2021 starfa 38 starfsmenn í 31 stöðugildi við skólann, 29 í samtals 22,5 stöðugildum við kennslu og 9 í samtals 8,5 stöðugildum við rekstur og þjónustusvið.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd