Fagmennska, fjölbreytni og virðing eru einkunnarorð Verkmenntaskólans á Akureyri – VMA. Nemendurnir eru hornsteinninn og skólans er að auka þekkingu þeirra, efla og þroska.
VMA er stærsti iðn- og verkmenntaskóli landsins utan höfuðborgarsvæðisins og stendur á gömlum merg. Nemendur eru um eitt þúsund og starfsfólk vel á annað hundrað. VMA var settur á stofn árið 1984 og var arftaki Iðnskólans, framhaldsdeilda Gagnfræðaskólans á Akureyri, Hússtjórnarskólans á Akureyri, vélstjórnarnáms Vélskóla Íslands og útibús Tæknskólans. Nemendur skólans koma af öllu landinu en mikill meirihluti þeirra er frá Akureyri og nærliggjandi byggðarlögum. Nemendur utan Akureyrar geta sótt um á sameiginlegri heimavist Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.
Námið
VMA er áfangaskóli og býður upp á fjölbreytt iðn- og starfsnám og nám til stúdentsprófs. Nemendur ljúka stúdentsprófi á þremur árum en geta einnig lokið námi á lengri eða skemmri tíma, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Áfangakerfið gerir nemendum kleift að útskrifast af fleiri en einni námsbraut. Margir nemendur sem ljúka námi af iðn- og starfsnámsbrautum skólans bæta við sig einingum til stúdentsprófs og slá þannig tvær flugur í einu höggi, ljúka námi með starfsréttindum og stúdentsprófið gefur þeim síðan aðgang að námi á háskólastigi.
Námsbrautir
Skólinn býður upp á sjö námsbrautir til stúdentsprófs;
félags- og hugvísindabraut, fjölgreinabraut, íþrótta- og lýðheilsubraut, listnáms- og hönnunarbraut – myndlistarlína, listnáms- og hönnunarbraut – textíllína, náttúruvísindabraut og viðskipta- og hagfræðibraut. Þá er unnt að stunda nám á listnámsbraut – tónlistarkjörsviði – í samvinnu við Tónlistarskólann á Akureyri.
Verknámsbrautirnar eru; bifvélavirkjun, matreiðsla, matartækni, hársnyrtiiðn, rafeindavirkjun, rafvirkjun, sjúkraliðabraut, stálsmíði, vélstjórn (A-D réttindi), vélvirkjun og húsasmíði. Þegar næg þátttaka fæst er einnig boðið upp nám í kjötiðn, pípulögnum, múriðn, málaraiðn, húsgagnasmíði og blikksmíði.
Nám á Brautabrú er sniðið að þeim nemendum sem eru óráðnir í námsvali þegar þeir koma í VMA eða hafa ekki náð fullnægjandi námsárangri í kjarnagreinum grunnskóla. Á starfsbraut er blanda af bæði bóklegu og verklegu námi fyrir nemendur sem þurfa einstaklingsmiðað nám.
Fjarnám; þá skal þess getið að VMA býður upp á fjarnám, er raunar frumkvöðull á sviði fjar-kennslu í framhaldsskólum á Íslandi. Í fjarnámi býður skólinn upp á nám til iðnmeistararéttinda.
Skólasamfélagið
Fjölbreytt og víðtækt námsframboð gerir það að verkum að skólasamfélagið í VMA er afar fjölbreytt og það er styrkur skólans. Nemendafélagið Þórduna heldur utan um öflugt félagslíf sem byggir m.a. á leiklist, tónlist, klúbbum af ýmsum toga auk hefðbundinna viðburða, s.s. nýnemahátíðar, árshátíðar og söngkeppni. Skólinn tekur þátt í ýmsum alþjóðlegum verkefnum sem víkkar út sjóndeildarhringinn, bæði fyrir starfsmenn og nemendur sem hafa á nokkrum verknámsbrautum tekið hluta af starfsnámi sínu erlendis.
Tengsl við atvinnulífið
Verkmenntaskólinn á Akureyri gegnir afar mikilvægu hlutverki í menntun ungs fólks, sem annar tveggja skóla á Norðurlandi sem býður upp á iðn- og starfsnám. Fjórða iðnbyltingin kallar á aukna áherslu á verk- og tæknimenntun og reynslan sýnir að nemendur úr starfsnámi og ekki síður þeir sem bæta við sig einingum til stúdentsprófs og opna þannig á frekara tækninám, standa vel að vígi á vinnumarkaði. VMA starfar náið með atvinnulífinu og fylgist þannig náið með þeim hröðu tæknibreytingum sem fyrirtækin tileinka sér á hverjum tíma. Nemendur á verknámsbrautum starfa á samningstíma sínum hjá fyrirtækjum í viðkomandi iðngreinum og á bæði stúdents- og verknámsbrautum vinna nemendur verkefni í samvinnu við hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir. Þessi nánu tengsl eru bæði skólanum og atvinnulífinu mikilvæg til þess að búa nemendur sem best undir að fara út á vinnumarkaðinn. Hlutverk VMA er efla, með starfsemi sinni, grunnþjónustu við íbúana og treysta þannig búsetuskilyrði og undirstöður velferðar í nærsamfélaginu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd