Í mars árið 2017 ákváðu tveir ungir Héraðsbúar að stofna saman verkfræði- og ráðgjafa-þjónustuna Verkráð ehf. Þetta voru þeir Björgvin Steinar Friðriksson, véltæknifræðingur og Bogi Kárason, vélaverkfræðingur. Þeir félagar voru sammála um að vöntun væri á slíkri starfsemi með höfuðstöðvar í heimabyggð. Má segja að það sé í grunninn kveikjan að stofnun fyrirtækisins ásamt þeirri hugmynd að vera lítið fyrirtæki á austfirskum markaði.
Sagan
Í upphafi hafði Verkráð litla skrifstofu á leigu að Miðvangi 2-4 á Egilsstöðum. Fyrst um sinn voru verkin mestmegnis þjónusta fyrir Alcoa Fjarðaál með áherslu á fyrirbyggjandi viðhald búnaðar ásamt ýmsum smáverkefnum á vélasviði. Það sýndi sig þó fljótlega að rými var fyrir þriðja mann hjá fyrirtækinu, þar sem fyrirspurnir eftir fjölbreyttari þjónustu voru margar. Í lok árs 2017 var ákveðið að flytja starfsemina í stærra og hentugra húsnæði að Fagradals-braut 11 og leita eftir starfskrafti á byggingarsviði. Í apríl 2018 bættist Guðmundur Þorsteinn Bergsson, byggingarverkfræðingur, í eigendahópinn. Þar með var hægt að takast á við fleiri og fjölbreyttari verkefni og mæta þeirri eftirspurn sem var fyrir hendi.
Mikill styrkur hefur verið fyrir Verkráð, að í sama leiguhúsnæði starfa einyrkjar, annars vegar undir merkinu Logg – landfræði og ráðgjöf og hins vegar Snidda – arkitektastofa. Í sameiningu hafa þessi þrjú fyrirtæki getað tekið að sér fjölbreyttari og stærri verkefni heldur en ella, sem hefur í kjölfarið aukið umsvifin enn frekar. Um mitt ár 2019 var verkefnastaðan slík, að eigendum þótti ástæða til að fjölga starfsmönnum Verkráðs. Úr varð að fjórði eigandinn bættist í hópinn í maí 2020 og var það Jónas Hafþór Jónsson, byggingafræðingur.
Á þeim fjórum árum sem Verkráð hefur starfað hefur þjónustan aukist jafnt og þétt, m.a. við sveitarfélög, stærri fyrirtæki og verktaka sem og við einstaklinga, ásamt því að sinna áfram verkefnum fyrir Alcoa Fjarðaál.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn Verkráðs er að halda áfram að þjónusta nærumhverfið og sinna smáum og meðalstórum verkefnum. Þar að auki sjá eigendur fyrir sér að flytja í eigið húsnæði, sem opnar enn frekar á möguleika á samstarfi við aðra eða frekari stækkun fyrirtækisins. Fjórmenningarnir gleðjast yfir þeirri staðreynd að lítil verkfræðistofa á Austurlandi, þar sem ákvörðunartaka fer fram heima í héraði, geti dafnað.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd