Bestseller í 46 ár
Árið 1975 var danska fyrirtækið Bestseller stofnað af hjónunum Merete Bech og Troels Holch Povlsen. Þau ráku fyrirtækið við góðan orðstír til ársins 2005 en þá tók sonur þeirra, Anders Holch Povlsen, við keflinu. Í dag er hann eini eigandi Bestseller og sjá foreldrar hans líklega ekki eftir að hafa hleypt syni sínum að enda tókst Anders á fyrstu 10 árum sínum sem forstjóri fyrirtækisins að þrettánfalda stærð félagsins. Bestseller sérhæfir sig í tísku og rekur u.þ.b. 10.000 verslanir um allan heim, en frá árinu 1996 hefur félagið opnað fleiri en eina búð á hverjum degi. Undir regnhlíf Bestseller eru merkin Jack & Jones, Vero Moda, Only, Noisy May, Vila, Object, Name It, Junarose, Pieces, Only & Sons, Yas, Mamalicious, Jacqueline de Yong, Produkt, LMTD og Postyr. Þá á félagið stóran hlut í Asos, sem margir Íslendingar þekkja vel, en Asos er stærsta tískunetverslun Bretlands. Bestseller á líka stóran hlut í þýsku tískunetversluninni Zalando og hefur velgengni fyrirtækisins skilað Anders í efsta sæti Forbes listans í Danmörku.
Bestseller Ísland
Við höldum hingað til lands þegar einn frumkvöðullinn í íslenskri smásölu, Margrét Þóra Jónsdóttir, stofnaði Bestseller Ísland árið 1987. Þá hafði hún í mörg ár keypt gallabuxur og peysur af hjónunum Merete og Troels en þau höfðu á þessum árum verið með lítinn sölubás á sýningum í Danmörku. Margrét opnaði svo fyrstu Vero Moda verslunina á Íslandi árið 1993 og var sú verslun staðsett á Laugavegi. Dætur Margrétar, Helga og Marta Árnadætur, komu svo inn í rekstur Bestseller Ísland um svipað leyti og verslunin var opnuð og leiddu systurnar félagið allt til ársins 2016. Það ár áttu og ráku þær, ásamt núverandi eiganda Bestseller Ísland, Grími Garðarssyni, verslanir hér heima og einnig fjölda Vero Moda verslana í Kanada.
Verslanir Bestseller
Í dag rekur Bestseller Ísland ellefu verslanir undir merkjum Vero Moda, Jack & Jones, Selected, Vila, Name it og bestseller.is sem er netverslun. Verslanirnar eru áberandi og vinsælar í báðum stóru verslunarmiðstöðvunum á höfuðborgarsvæðinu, Kringlunni og Smáralind. Verslanirnar bjóða einnig upp á önnur vinsæl undirmerki undir Bestseller regnhlífinni og eru Íslendingum að góðu kunn.
Mannauður
Yfir 100 manns starfa hjá Bestseller á Íslandi og rekur félagið skrifstofur og vörulager í Gilsbúð 5 í Garðabæ. Stjórnendur leggja ríka áherslu á jákvætt og uppbyggilegt umhverfi fyrir starfsfólk og er markmið félagsins að veita Íslendingum tækifæri til að versla hágæða tískufatnað á hagstæðu verði og veita viðskiptavinum sínum góða og trygga þjónustu. Frekari upplýsingar um Bestseller á Íslandi er að finna inni á vefsíðunni bestseller.is.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd