Verzlunarskóli Íslands er menntastofnun sem býður upp á þriggja ára framhaldsnám, til stúdentsprófs, fyrir nemendur sem hafa lokið grunnskólaprófi. Skólinn starfar eftir bekkjarkerfi og starfrækir fjórar námsbrautir þar sem hægt er að velja á milli mismunandi lína. Áhersla er lögð á að skapa þroskandi námsumhverfi sem eflir jafnt náms- og persónulega hæfni nemenda. Verzlunarskóli Íslands er sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt skipulagsskrá sem Viðskiptaráð Íslands setur. Samkvæmt henni er meginhlutverk skólans að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs innbyrðis, sem og gagnvart öðrum þjóðum með því að efla og veita almenna menntun og viðskiptafræðslu á framhaldsskólastigi.
Saga og þróun
Hinn 15. apríl árið 1904 voru 50 ár liðin frá því að Danir veittu Íslendingum fullt verslunarfrelsi. Í tilefni þess efndi verslunarstéttin í Reykjavík til samsætis. Þar flutti Brynjólfur H. Bjarnason ræðu og minntist þarna á að verslun og viðskipti yrðu ekki efld frekar nema með stofnun menntaseturs á þessu sviði. Málið komst síðan á skrið þegar Verzlunarmannafélag Reykjavíkur tók það upp á sína arma, en fyrir tilstilli þess og Kaupmannafélags Reykjavíkur var Verzlunarskóli Íslands stofnaður haustið 1905. Árið 1919 var lagt fram frumvarp á þingi um ríkisrekinn verslunarskóla. Málinu var vísað frá, en aðstandendur Verzlunarskóla Íslands töldu að skólinn þyrfti að eignast öflugan forsvarsaðila ef tryggja ætti framtíð hans. Samkvæmt ósk Kaupmannafélagsins, Verzlunarmannafélagsins og skólanefndar varð sú breyting árið 1922 að Verslunarráð Íslands tók að sér umsjón og yfirstjórn skólans og svo hefur verið síðan.
Fyrsta árið var einungis kennt í tveimur deildum, yngri deild og undirbúningsdeild. Eldri deild tók til starfa næsta skólaár. Þessi skipting var við lýði til ársins 1926, en þá var þriðja bekk bætt við. Árið 1935 var fjórða bekk bætt við og sama ár var sett á stofn framhaldsdeild fyrir þá nema sem lokið höfðu verslunarprófi. Sú ráðstöfun lagði grunninn að stofnun viðskiptaháskóla árið 1938, en hann breyttist í viðskiptadeild Háskóla Íslands árið 1941. Með reglugerð um lærdómsdeild Verzlunarskóla Íslands árið 1942 aflaði skólinn sér heimildar til að útskrifa stúdenta. Verslunargreinar og tungumál settu í upphafi mestan svip á námsefni lærdómsdeildar, en tilkoma hennar átti eftir að auka námsframboðið til mikilla muna þegar fram í sótti. Hagfræðideild og máladeild voru settar á stofn árið 1970 og stærðfræðideild árið 1984. Árið 2004 var farið í heildarendurskipulagningu á starfsemi skólans, námsleiðum fjölgað og námsframboð aukið. Árið 2005 hóf skólinn að bjóða upp á fjarnám og er það opið öllum. Fjarnámið hefur vaxið jafnt og þétt og geta fjarnemendur útskrifast með stúdentspróf af öllum brautum Verzlunarskóla Íslands. Fjarnámið er í boði þrjár annir á ári og útskrifað í lok hverrar annar. Vorið 2015 var í fyrsta sinn innritað í skólann samkvæmt skipulagi þriggja ára náms til stúdentsprófs þar sem boðið var upp á fjórar ólíkar námsbrautir. Skólaárið 2017 – 2018 markaði tímamót í sögu Verzlunarskólans þar sem saman brautskráðust síðustu nemendur skólans úr fjögurra ára náminu og þeir fyrstu í hinu nýja þriggja ára námi.
Námsleiðir
Verzlunarskólinn býður upp á fjórar námsbrautir. Innan hverrar brautar er ýmist ein, tvær eða þrjár línur sem draga fram frekari sérkenni námsleiða. Nemendur innritast inn á ákveðna námsbraut og línu við upphaf skólagöngu sinnar. Innan hverrar námsbrautar geta nemendur valið sér leiðir til þess að búa sig fyrir frekara nám á háskólastigi.
Á alþjóðabraut er lögð áhersla á tungumál og kjarnagreinar félagsvísinda, s.s. alþjóðafræði, menningarfræði, stjórnmálafræði, sögu og sálfræði. Nemendum alþjóðabrautar gefst færi á að taka þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Náttúrufræðibraut skiptist í eðlisfræðilínu og líffræðilínu. Á brautinni er lögð áhersla á stærðfræði og raungreinar, s.s. líffræði, jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði. Sérkenni eðlisfræðilínunnar eru m.a. stærðfræði, eðlisfræði og stjörnufræði. Eðlisfræðilína er góður undirbúningur fyrir nám í verkfræði, stærðfræði og heilbrigðis- og raunvísindum. Líffræðilína er góður undirbúningur fyrir nám í verkfræði, læknisfræði og heilbrigðis- og raunvísindum. Sérkenni líffræðilínu eru m.a. líffræði, efnafræði og jarðfræði. Nýsköpunar- og listabraut er ætlað að búa nemendur undir frekara nám á háskólastigi, sér í lagi innan hugvísinda og lista. Námið samanstendur af kjarnagreinum sem fléttast saman við hönnun og listgreinar, s.s. stafræna hönnun, sjónlistir, ritlist og leiklist.
Viðskiptabraut skiptist í þrjár línur. Á brautinni er lögð áhersla á viðskiptagreinar, s.s. bókfærslu, hagfræði, fjármál, lögfræði og frumkvöðlafræði. Sérkenni hagfræðilínu eru m.a. stærðfræði, rekstrarhagfræði og þjóðhagfræði. Sérkenni viðskiptalínunnar er m.a. markaðsfræði, stjórnun og enska. Þriðja og nýjasta lína brautarinnar er stafræn viðskiptalína. Sérkenni þar eru m.a. stafræn miðlun, gagnagreining og vinnustaðanám. Nánari upplýsingar um einstakar námsgreinar og annað, sem varðar starfsemi Verzlunarskóla Íslands er að finna á heimasíðu skólans: www.verslo.is
Námsmarkmið
Meginmarkmið náms við Verzlunarskóla Íslands eru tvíþætt. Í fyrsta lagi að brautskráðir nemendur verði færir um að takast á við nám í háskóla eða sérskóla á háskólastigi. Í öðru lagi að brautskráðir nemendur verði færir um að stunda rekstur og gegna stjórnunarstörfum í íslensku atvinnulífi. Til að þessi markmið náist verður námsframboð að taka mið af þeim kröfum sem háskólar hérlendis og erlendis gera til nýnema. Einnig verður skólinn að laga sig að síbreytilegum aðstæðum og þróun samfélagsins. Til að brautskráðir nemendur séu tilbúnir að hefja störf í tæknivæddu nútímasamfélagi verður að fylgjast vel með allri þróun sem á sér stað á sviði upplýsinga- og tölvutækni. Verzlunarskólinn hefur að markmiði að vera í fremstu röð menntastofnana á þessu sviði.
Stjórn / starfslið / nemendur
Í fulltrúaráði Verzlunarskóla Íslands sitja níu einstaklingar sem skipaðir eru af Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands. Fulltrúaráðið skipar fimm manna skólanefnd sem ræður skólastjóra. Skólastjóri ræður síðan annað starfsfólk. Að jafnaði starfa um 113 manns við skólann, fjöldi nemenda í dagskóla er um 1000 og yfir 500 nemendur á önn í fjarnámi.
Skólastjóri og aðrir stjórnendur:
Skólastjóri:
Ingi Ólafsson.
Skólastjórn:
Guðrún Inga Sívertsen, starfsmanna- og þróunarstjóri,
Klara Hjálmtýsdóttir, áfangastjóri,
Sigurlaug Kristmannsdóttir, fjarnámsstjóri,
Þorkell H. Diego, yfirkennari.
Skólanefnd:
Formaður: Bryndís Hrafnkelsdóttir,
varaformaður: Helgi Jóhannesson.
Meðstjórnendur:
Andri Þór Guðmundsson,
Hannes Frímann Hrólfsson,
Sigríður Margrét Oddsdóttir.
Áheyrnarfulltrúi kennara:
Ásta Henriksen.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd