Vestfirskir verktakar ehf

2022

Vestfirskir verktakar á Ísafirði eru stærsta verktakafyrirtæki á norðanverðum Vestfjörðum. Fyrirtækið var stofnað í október árið 2003 af húsasmíðameisturunum Garðari Sigurgeirssyni og Sveini Inga Guðbjörnssyni og múrarameistaranum Hermanni Þorsteinssyni. Allir stóðu þeir á vissum krossgötum þegar fyrirtækið var stofnað og jarðvegurinn á svæðinu frjór fyrir rekstur sem þennan. Stórt verktakafyrirtæki, Eiríkur og Einar Valur, hafði nýlega hætt rekstri og keyptu þeir eignir þess á Skeiði á Ísafirði, auk þess sem Sveinn Ingi kom þaðan. Garðar hafði áður verið með GS trésmíði og Hermann með Garðamúr og komu fyrstu tíu starfsmenn Vestfirskra verktaka frá þessum þremur fyrirtækjum. Hermann sagði skilið við Vestfirska verktaka árið 2013 og í dag eru það Garðar og Sveinn Ingi sem standa í brúnni. Þeir mynda stjórn fyrirtækisins, Sveinn Ingi er stjórnarformaður og Garðar er framkvæmdastjóri. Meðstjórnendur eru eiginkonur þeirra, Inga Lind Ragnarsdóttir og Anna Jakobína Hinriksdóttir. Sameiginleg sýn stofnendanna var skýr: að festa sig í sessi sem traust verktakafyrirtæki og í krafti aukinnar stærðar geta boðið í stærri verk. Þeir vildu skapa sér gott orðspor og vinna af dug og dáð fyrir verkkaupa á svæðinu. Alla tíð hefur áhersla verið lögð á að sinna verkum á heimasvæðinu, þó annað slagið falli til verk víðar um land. Norðursvæði Vestfjarða er höfuðvígið, en með tilkomu Dýrafjarðarganga opnast möguleiki á að sinna verkum á sunnanverðum Vestfjörðum í auknum mæli.

Starfsemin
Allar götur frá stofnun hefur verið nóg að gera hjá fyrirtækinu. Aðstæður í byggingariðnaði á Vestfjörðum hafa ekki tekið eins stórum breytingum og á höfuðborgarsvæðinu. Lítil þensla var í aðdraganda hrunsins og hrunið mildara. Starfsemin hefur heldur ekki sveiflast vegna COVID-19 sem geisað hefur undanfarið ár.
Það getur verið krefjandi verk í byggingabransanum að takast á við veðurguðina og veturnir á Vestfjörðum stundum harðir. Síðustu áratugi hefur sú breyting orðið á að ekki er lengur lagt upp með að vinna útiverk að sumarlagi, heldur er unnið úti allan ársins hring. Veðurfarið getur haft þær afleiðingar að verkin verða dýrari fyrir vikið, það kemur þó ekki niður á gæðum og er ráðist í hvert verk með það að markmiði að klára það vel.
Vestfirskir verktakar leggja mikið upp úr góðu samstarfi við aðra verktaka og mikið af stærri verkum sem unnin hafa verið á svæðinu verið gerð í góðu samstarfi ólíkra verktaka. Fyrirtækið ræður undirverktaka eftir þörfum þegar það tekur að sér verk sem krefjast krafta úr ólíkum iðngreinum.

Starfsmenn og aðstaða
Ekki voru starfsmenn fyrirtækisins lengi tíu. Starfsmannafjöldinn tvöfaldaðist fljótt og hefur oftast verið í kringum tuttugu manns. Stjórnunarstíllinn er persónulegur og mikið lagt upp úr því að jákvæður starfsandi ríki. Þess vegna starfar hjá fyrirtækinu traustur, fastur kjarni. Skipting milli verkamanna og faglærðra smiða er nokkuð jöfn.
Frá upphafi hafa aðalbækistöðvarnar verið á Skeiði, en það horfir til breytinga, því fyrirtækið byggir nú 1500 fermetra atvinnuhúsnæði við Æðartanga á Ísafirði. Kemur það til með að hýsa fjölbreytta iðnaðarstarfsemi og þangað flytja Vestfirskir verktakar starfsemi sína á árinu.

Byggingar og mannvirki
Helstu tegundir verka hjá Vestfirskum verktökum eru nýbyggingar og viðhald, en fyrirtækið hefur einnig sinnt brúarsmíðum og annarri mannvirkjagerð, auk þess sem viðhaldsvinna er stöðugur hluti af starfseminni. Stærsta verkefnið til þessa er bygging hjúkrunarheimilisins Eyrar á Ísafirði, þar sem fyrirtækið sinnti öllum verkþáttum, en einnig sá það um byggingu hins glæsilega hjúkrunarheimilis Bergs í Bolungarvík. Fyrirtækið hefur tekið að sér byggingu atvinnuhúsnæðis bæði sem verktakar og að eigin frumkvæði líkt og í tilfelli geymsluhúsnæðis við Mávagarða á Ísafirði. Tókst sú frumkvöðlastarfsemi vel og seljast geymslubilin alltaf jafnóðum og þau eru byggð.
Brúarsmíði hefur verið stór hluti verkefna og brúin yfir Mjóafjörð þar stærsta verkið, en það var unnið með verktakafyrirtækinu KNH. Verkið er hið glæsilegasta og hlaut það Vörðuna, viðurkenningu Vegagerðarinnar í mannvirkjagerð. Vestfirskir verktakar hafa einnig komið að virkjanabyggingum, bæði í Engidal á Ísafirði, sem og í Mjólká í Arnarfirði og þá hafa þeir sinnt stórum verkum sem undirverktakar í jarðgangnagerð, bæði í Bolungarvíkurgöngum og Dýrafjarðargöngum.
Vestfirðir hafa átt í vök að verjast yfir langt skeið með tilliti til íbúafjölda, en síðustu ár hefur verið lítilsháttar fólksfjölgun á Ísafirði sem hefur aukið eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði. Fasteignaverð hefur hækkað umtalsvert og í fyrsta sinn í áratugi svarar það kostnaði að ráðast í byggingaframkvæmdir. Vestfirskir verktakar eygja þarna tækifæri til skemmtilegra verka, en þeir eru alls ekki ókunnir húsbyggingum. Yngsta íbúðarhverfið á Ísafirði, Tunguhverfi, hefur verið byggt af þeim að stórum hluta og árið 2020 luku þeir gerð glæsilegs 13 íbúða fjölbýlishúss, þess fyrsta sinnar tegundar á Ísafirði í 20 ár.
Vestfirskir verktakar hafa nýlokið við gerð brúar í Bjarnardal í Önundarfirði og eru að hefjast handa við brúargerð í Tálknafirði. Þeir eru að leggja lokahönd á fiskeldishús á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi og byggja nú nýtt geymsluhúsnæði við Mávagarð, auk iðnaðarhússins við Æðartanga, þá er líka í kortunum að byggja 1000 fermetra fiskmarkað í Bolungarvík. Á þessu má sjá að horfur fyrirtækisins eru góðar og framtíð byggingariðnaðarins á Vestfjörðum björt. Með sína stærstu auðlind, mannskapinn, munu Vestfirskir verktakar halda áfram að reisa minnisvarða um starfsemi sína um ókomin ár.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd