Vestmannaeyjar

2022

Hið undurfagra ævintýri – Vestmannaeyjar
Um 10 km suður undan Landeyjasandi hringa sig um eða yfir 15 eyjar, auk skerja og dranga, „sem safírar greyptir í silfurhring“, eins og þjóðskáldið Einar Benediktsson orti. Heimaey er stærsta eyjan og sú eina sem byggð hefur verið, en hún er einnig stærsta eyja landsins. Syðsta eyjan, og útvörður Íslands í suðri, er Surtsey er reis úr hafi í neðansjávareldgosi 1963-1967 og er meðal yngstu eyja heimsins. Surtsey er friðlýst og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 2008.

Sagan
Frá öndverðu hafa Vestmannaeyjar verið ein stærsta verstöð landsins og sökum þeirra náttúrugæða urðu Eyjar mjög snemma ákjósanleg miðstöð verslunar og viðskipta. Því hefur jafnvel verið haldið fram af fræðimönnum að hér sé að finna elsta þéttbýlisstað landsins. Þrátt fyrir að Vestmannaeyjar væru frá náttúrunnar hendi eitt Drottins gnægtabúr, eða kannske þess vegna, bjuggu Eyjaskeggjar lengstum við harðbýli. Allt frá miðöldum töldust Eyjar eitt af íslenskum djásnum hins danska konungdæmis og jafnan til þeirra vísað sem séreignar hans hátignar.

Nýja öldin
Árið 1906 er sem nýr dagur renni upp yfir Eyjarnar. Á undraskömmum tíma margfaldast íbúafjöldi í Vestmannaeyjum. Það er eins og aldahöft bresti í einni svipan, vélbátar leysa hin þungu áraskip af hólmi og næga vinnu er að hafa fyrir hvern verkfúsan mann. Óhjákvæmilegur fylgifiskur er bjartsýnin, gleðin yfir þeim nýju tækifærum sem alls staðar blasa við. Þess er heldur ekki langt að bíða að íbúafjöldinn taki einnig við sér. Öldum saman hafði hann staðið nokkurn veginn í stað í Eyjum, um 300-600 manns allt frá Tyrkjaráninu 1627 og fram til 1900. En þá kemur nýja öldin. Íbúafjöldinn óx á aldarfjórðungnum 1900-1925, úr um 600 manns árið 1900 í ríflega 3000 árið 1925. Árið 1919 fengu Vestmannaeyjar kaupstaðarréttindi og bærinn tók að byggjast upp. Sú uppbygging hélt óslitið áfram allt fram að gosi þegar eyjaskeggjar töldust rúmlega 5200. Aldrei aftur átti íbúafjöldinn eftir að ná fjöldanum sem hér bjó fyrir gos og aldrei aftur átti Eyjan eftir að græða mestu sárin, austurhlutinn gamli var að eilífu horfinn. Aðeins Tyrkjaránið 1627, þegar meira en helmingur íbúa var tekinn höndum og fluttur sem þrælar til framandi landa, getur talist sambærilegur stórviðburður í sögu Eyja og landsins alls.

Nútíminn
Þegar litið er til nútímans blasir við öflugt og margþætt samfélag enda þótt sjávarútvegur gegni enn lykilhlutverki með flaggskipin Vinnslustöðina og Ísfélagið, elsta samfellt starfandi hlutafélag á Íslandi, í broddi fylkingar. Nýr Herjólfur sem hóf siglingar 2019 siglir 6-7 ferðir milli lands og Eyja á dag í Landeyjahöfn sem var tekin í notkun 2010. Í kjölfar aukinna farþegasiglinga til Vestmannaeyja hefur orðið bylting í ferðaþjónustu með stórauknum fjölda
ferðamanna og lengingu á „ferðasumrinu“. Náttúruperlur eru hér við hvert fótmál, ummerki eldgossins eru svipmikil fyrir þá sem ekki þekkja til, söfn hafa bæst við í flóru menningarlífsins á síðustu árum með Sea Life og griðastað mjaldra, Eldheima og Sagnheima, sem burðarása ásamt öðrum söfnum Safnahúss og sýningarrými. Þá hafa veitingahús bæjarins sprungið út undanfarin ár og skýrt dæmi þess að hér er boðið upp á það sem best þykir er að Vestmannaeyjar voru tilnefndar til norrænu matvælaverðlaunanna 2022. Ferðaiðnaðurinn er þar með orðinn önnur stoðin undir blómlegt og vaxandi samfélag. Þriðja stoðin undir fjölbreytt atvinnulíf í nútíð og framtíð er efling líftækniiðnaðar í Eyjum með margvíslegum hætti, einkum með nýsköpun á sviði sjávarlíftækni og staðbundinnar matvælaframleiðslu. Vestmannaeyjar nútímans eru því byggð tækifæranna með öflugan grunnskóla sem haustið 2021 varð frumkvöðull í nýsköpunarverkefninu Kveikjum neistann – sem ætlað er að efla læsi og bæta líðan –, framhaldsskóla sem var valinn stofnun ársins í sínum flokki árin 2018 og 2020 vaxandi samstarf við háskólastigið og tónlistarskóla sem býður upp á ótrúlega fjölbreytt og gefandi nám. Bæði skólar og samfélagið allt hafa lagst á árar við að efla íþróttir sem allra mest og eru Vestmannaeyjar einn öflugasti íþróttabær landsins undir merkjum ÍBV með lið í efstu deildum karla og kvenna, bæði í hand- og fótbolta, golfvöll á heimsmælikvarða og landsfrægar og vinsælar göngu- og hlaupaleiðir. Leikfélag Vestmannaeyja er annað dæmi um grósku mannlífs og menningar í Eyjum en það hefur verið starfandi frá 1910 og rekur upphaf sögu sinnar til miðrar 19. aldar. Þá má ekki gleyma sérstöðu Eyjanna með sínar þekktu bæjarhátíðir; Þrettándann, Goslokahátíð og Þjóðhátíð, með hinum sígildu Eyjalögum, sem er langlífasta stórhátíð landsins. Í könnun landshlutasamtaka sveitarfélaga á búsetuskilyrðum og hamingju 2022 enduðu Vestmannaeyjar í 1. sæti og höfðu áður vermt oddvitasætið af sömu ástæðu. Það má því segja að gott þyki að búa í Vestmannaeyjum.

Bæjarstjórn:

  • Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar
  • Jóna Sigríður Guðmundsdóttir
  • Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs
  • Hildur Sólveig Sigurðardóttir
  • Helga Kristín Kolbeins
  • Trausti Hjaltason

Bæjarstjóri:

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri frá 24. júní 2018

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd