Vestri ehf. á Patreksfirði hóf útgerð á 100 lesta bát sem keyptur var frá Bolungarvík árið 1967. Hét báturinn þá Heiðrún ÍS en fékk heitið Vestri BA við komuna á Patreksfjörð og hafa öll skip útgerðarinnar borið það nafn. Skipstjóri var Jón Magnússon sem einnig stofnaði Odda hf. á Patreksfirði og hélt hann um stjórnvölinn á öllum fyrstu skipum útgerðarinnar.
Sagan, eigendur og aðsetur
Árið 1972 var stofnað hlutafélag um útgerðina og voru stofnendur þau Jón Magnússon, Lilja Jónsdóttir, Ólafur Magnússon, Kristín Pálsdóttir og Sigurgeir Magnússon. Síðar gerðist Kristinn Guðjónsson huthafi. Sama ár var ráðist í kaup og rekstur á 200 lesta skipi sem keypt var frá Sauðárkróki. Árið 1993 var því skipt út fyrir 30 lesta línu- og dragnótabát en hann var seldur árið 2000. Það ár var hafin smíði á nýju 100 lesta skipi í Kína sem koma skyldi í stað þess eldra og var það útbúið á dragnótaveiðar. Þetta skip kom hingað til lands ásamt fleiri sams konar skipum sem flutt voru hingað sjóleiðina á einu flutningaskipi frá Kína. Skipið var síðan selt árið 2005 en þá var keypt 200 lesta skip frá Stykkishólmi sem er enn í útgerð Vestra ehf. og ber samkvæmt hefðinni heitið Vestri BA 63. Skipið er útbúið á dragnóta- og togveiðar. Skipstjóri er Jón Árnason, yfirstýrimaður er Guðmundur Jóhann Sæmundsson og yfirvélstjóri er Gunnar Pétur Héðinsson. Jón Árnason og Sigurður Viggósson stjórnarformaður eru stærstu hluthafar í Vestra ehf. en aðrir hluthafar eru börn Jóns Magnússonar og Lilju Jónsdóttur annars vegar og hins vegar erfingjar Ólafs Magnússonar og Báru Pálsdóttur. Framkvæmdastjóri er Jón Árnason. Í stjórn eru Sigurður Viggósson, formaður, Jón Árnason og Arnheiður Jónsdóttir.
Skrifstofur Vestra ehf. eru í Ólafshúsi, Aðalstræti 5 á Patreksfirði, sem er eitt elsta hús á Patreksfirði og nýlega endurbyggt af útgerðinni. Heimahöfn Vestra er á Patreksfirði og voru starfsmenn 9 talsins árið 2020.
Veiðar og stefna
Í upphafi var Vestri gerður út á línu og net en á síðasta áratug síðustu aldar og þeim fyrsta þeirrar tuttugustu og fyrstu var gert út á dragnót. Síðustu tíu ár hefur verið gert út á togveiðar, helming ársins á botnfiskveiðum og hinn helminginn á rækjuveiðum. Stefna stjórnar félagsins er að halda áfram á sömu miðum með óbreyttum rekstri. Áfram verður því gert út á bolfisk og rækju.
Samfélagsmál
Vestri hefur stutt við margvísleg góð mál á Patreksfirði frá upphafi og bæði á sviði góðgerðamála og menningarmála. Sjómannadagurinn á Patreksfirði var eitt þeirra verkefna sem útgerðin kom að í mörg ár.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd