Vesturbyggð

2022

Vesturbyggð er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum og það vestasta á Íslandi og í Evrópu. Til Vesturbyggðar teljast byggðakjarnarnir Birkimelur á Barðaströnd, Bíldudalur, Patreksfjöður og sveitirnar Barðaströnd, Breiðavík, Hænuvík, Ketildalir, Látrar, Rauðisandur og Suðurfirðir. Bæjarstjórn Vesturbyggðar er skipuð 7 bæjarfulltrúum. Forseti bæjarstjórnar er Iða Marsibil Jónsdóttir og bæjarstjóri er Rebekka Hilmarsdóttir. Nýuppgert Ráðhús Vesturbyggðar var formlega tekið í notkun í desember 2018 en starfsstöðvar sveitarfélagsins eru nokkrar.

Skólastarf í Vesturbyggð
Í Vesturbyggð eru reknir tveir leikskólar, leikskólinn Araklettur á Patreksfirði og leikskólinn Tjarnarbrekka á Bíldudal. Tveir grunnskólar eru í sveitarfélginu, Patreksskóli og Bíldudalsskóli. Þar að auki rekur sveitarfélagið tónlistarskóla, frístundaheimili og skólaskrifstofu. Þá er rekin framhaldsdeild á Patreksfirði sem er útibú frá Fjölbrautarskólanum á Grundarfirði.
Á Bíldudal er rekinn sameinaður leik- og grunnskóli með um 40 nemendum. Á Patreksfirði er grunnskóli með um 100 nemendur og þar af eru einnig börn í nýstofnaðri 5 ára deild.
Þá sér Fræðslumiðstöð Vestfjarða um ýmis námskeið fyrir fullorðna. Í Vesturbyggð hefur verið lögð áhersla á góða og markvissa skólastefnu og vel hlúð að skólastarfi. Vesturbyggð er með samning við sérfræðinga í skólaþjónustu þar sem þjónustan felst bæði í ráðgjöf og fjarþjónustu, ásamt heimsóknum.

Íþróttir og tómstundir í Vesturbyggð
Í Vesturbyggð eru starfrækt fjölmörg félagasamtök sem starfa með fólki á öllum aldri. Héraðssambandið Hrafna-Flóki og 8 aðildarfélög þess halda utan um íþróttalíf svæðisins með fjölbreyttri starfsemi. Meðal helstu íþróttagreina sem iðkaðar eru á svæðinu eru knattspyrna, frjálsar íþróttir, körfuknattleikur, fimleikar, blak, golf og skotíþróttir. Aðstaða til iðkunar er góð. Íþróttahúsin Brattahlíð og Bylta hýsa vetrarstarfsemina og íþróttavellirnir Vatneyrarvöllur og Völuvöllur eru vettvangur sumarstarfs. Í Vesturbyggð eru tveir 9 holu golfvellir sem iða af lífi yfir golfvertíðina, annar í botni Patreksfjarðar og hinn í Bíldudal. Í Vesturbyggð eru þrír spark-vellir og fjórar sundlaugar. Sundlaugin á Patreksfirði er starfrækt af Vesturbyggð á meðan sundlaugin í Reykjafirði, sundlaugin við Krossholt og sundlaugin við Flókalund eru reknar af einkaaðilum og/eða félagasamtökum. Möguleikar til útvistar eru óþrjótandi í faðmi fjalla og fjöru um allt sveitarfélagið.
Íþróttaskóli Vesturbyggðar er starfræktur bæði á Patreksfirði og Bíldudal yfir skólamánuði. Í íþróttaskólanum eru börn á yngsta stigi grunnskólanna.
Eyrarsel á Patreksfirði er opið öllum 18 ára og eldri. Starfið er mismunandi eftir dögum og skipulagt og mótað eftir þátttöku. Félagsmiðstöðvarnar Vest-End og Dímon halda utan um félagsstarf ungmenna á elsta stigi grunnskólanna með skipulagðri dagskrá.
Umhverfismál
Vesturbyggð hefur lagt sitt af mörkum hvað varðar áherslur í umhverfismálum. Til að mynda tekur Vesturbyggð þátt í verkefninu umhverfisvottaðir Vestfirðir þar sem áherslan er lögð á starfsemi sveitarfélaganna. Þar eru ýmsir þættir skoðaðir eins og innkaup, orkunotkun og nýting, vatnsnotkun og nýting, sorpförgun og endurvinnsla ásamt fleiri þáttum. Innan umhverfisvottaðra Vestfjarða eru nokkur verkefni á borð við grænt bókhald og svo verkefnið plastpokalausir Vestfirðir, sem sveitarfélagið er einstaklega stolt af. Hópur kvenna í Vesturbyggð hefur komið saman og saumað taupoka í þúsundatali og endurnýta þær gömul efni, s.s. boli, sængurver, gardínur o.fl. Þetta verkefni er gert með það að markmiði að íbúar minnki plastpokanotkun og hefur verið gert í samstarfi við verslanir á svæðinu sem flestar hafa alfarið tekið plastpoka úr umferð, eða hækkað verðið á þeim umtalsvert. Vesturbyggð hefur einnig tekið þátt í átaki um að hreinsa strendur á landsvæðinu, eins og á Rauðasandi. Þar að auki hafa allir skólar Vesturbyggðar tekið þátt í grænfánaverkefni, þar sem þeir fylgja sjö skrefa ferli um umhverfismál og fá að flagga grænfánanum til tveggja ára í senn ef markmiðunum er náð. Einnig eru smábátahafnirnar á Patreksfirði og Bíldudal handhafar bláfánans. Bláfáninn er alþjóðleg umhverfisvottun sem veitt er smábátahöfnum og baðströndum. Meginmarkmið verkefnisins er að vernda lífríki haf-og strandsvæða, draga úr umhverfisáhrifum, bæta öryggi og efla umhverfisvitund.

Atvinnu- og menningarmál
Menningarlífið í Vesturbyggð er blómlegt og í því nafni má nefna bæjarhátíðirnar sjómannadaginn, sem haldinn er árlega á Patreksfirði og Bíldudals grænar sem Bílddælingar fagna á öðru hverju ári. Einnig er heimildamyndahátíðin Skjaldborg haldin í Skjaldborgarbíói og setur skemmtilegan brag á menningarlífið á sunnanverðum Vestfjörðum. Á haustin er blúshátíð vel sótt af íbúum og gestum þeirra ásamt þeim fjölmörgu tónlistarviðburðum sem dúkka upp á ári hverju. Undanfarin ár hefur fjölbreytileiki lista-og menningarlífs aukist svo um munar. Á svæðinu er einnig Minjasafnið að Hnjóti, Muggsstofa á Bíldudal opnaði árið 2021 en hún þjónar hlutverki samfélagsmiðstöðvar fyrir svæðið. Þar er starfrækt bókasafn Bíldudals, félagsstarf eldri borgara og hún er opin öllu samfélaginu. Skrímslasetrið á Bíldudal sem og Listasafnið í Selárdal. Bókasöfn eru tvö í sveitarfélaginu, á Patreksfirði og á Bíldudal.
Sjávarútvegur hefur alla tíð verið hryggjarstykkið í atvinnulífi sunnanverðra Vestfjarða og er það enn. Mikil umsvif hafa verið á undanförnum árum í kringum fiskeldi og hefur það haft mikið að segja varðandi aukin atvinnutækifæri á svæðinu. Meðal stærstu fyrirtækja á svæðinu má nefna Odda hf. fiskvinnsla og útgerð, Íslenska Kalkþörungafélagið, Arnarlax og Arctic Fish. Síðustu ár hefur ferðaþjónusta aukist á svæðinu þar sem vinsælustu áfangastaðirnir eru Látrabjarg, Rauðisandur og Selárdalur, ásamt óteljandi leyndum perlum og náttúrulaugum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd