Vilko ehf

2022

Fyrirtækið Vilko stendur á gömlum merg og orðinn stór þáttur í matarmenningu Íslendinga. Fyrirtækið var stofnað í Kópavogi árið 1969 og fagnaði því 50 ára afmæli árið 2019 en árið 1986 festi Kaupfélag Húnvetninga kaup á fyrirtækinu og flutti starfsemina á Blönduós. Árið 2000 var fyrirtækið gert að hlutafélagi sem er í eigu Ámundarkinnar ehf., Ó. Johnson & Kaaber ehf., sveitarfélaganna í Austur-Húnavatnssýslu o.fl. Kári Kárason hefur verið framkvæmdastjóri Vilko frá árinu 2009.

Starfsemin
Vilko hefur á undanförnum árum þróað starfsemi sína talsvert frá upphaflegum markmiðum Kaupfélags Húnvetninga. Það má setja rekstur Vilko fram sem fjórar grunnstoðir eða verkþætti sem saman mynda heild. Þessir þættir eru framleiðsla Vilko, súpur, vöfflur pönnukökur o.fl. Þá er Prima kryddlínan stoð númer tvö með mest selda kryddi á landinu. Þriðja stoðin er vörumerkið Flóra sem Vilko keypti árið 2018 ásamt sérframleiðslu og pökkunarverkefni eins og poppframleiðslu fyrir Ölgerðina o.fl. Fjórða stoðin og kannski mest vaxandi þáttur Vilko er hylkjunardeild sem framleiðir bætiefni og vítamín í hylki. Saman skapa þessar 4 stoðir sterka heild þar sem eggin eru í mörgum körfum en ekki öll í einni körfu. Það skipulag kom sér vel á árinu 2020 Þar sem ástandið í samfélaginu hjó vissulega skörð í rekstur fyrirtækja um land allt.
Tækni og tækjakostur Vilko hefur verið endurnýjaður mikið á seinustu árum. Það ber helst að nefna nýja kryddpökkunarlínu sem pakkar Prima kryddum í glerglös. Þessi lína kom ný á árinu 2018 og tvöfaldaði afkastagetu framleiðslu. Einnig hafa verið fjárfestingar í pökkunarvélum fyrir þurrvörur og síðast en ekki síst endurbætur á vélakosti hylkjunardeildar. Hylkunarvélar setja duft í hylki og þannig framleiðum við margar tegundir bætiefna og vítamína. Vélakostur okkar hefur átt stórann þátt í þróun margar vörutegunda sem hafa fest sig á markaði. Ber þar helst að nefna, Kollagen, Liði o.fl. undir vörumerki Protis og bætiefnalínu Iceherbs eða Íslenskra Fjallagrasa.
Vilko hefur vaxið mikið frá árinu 2016 og nærri tvöfaldað veltu og starfsmannafjölda. Það er bæði mikilvægur þáttur fyrir atvinnusvæðið okkar hér á Norðurlandi vestra en ekki síður stóraukið möguleika og tækifæri til að stækka enn frekar og styrkja sérstöðu fyrirtækisins á landsvísu. Þegar fyrirtæki vaxa svo hratt verða til vaxtarverkir sem gera lítið fyrirtæki of stórt til að vera áfram lítið í skipulagi og rekstri. Með aukinni veltu kemur þörf fyrir sérfræðistörf á sviðum gæðamála, markaðsmála, fjármálastjórnunar o.fl. sem skapar sterkari þekkingu á svæðinu og um leið þekkingum og reynslu til að vaxa og dafna áfram á sömu braut.

Íslensk framleiðsla
Framleiðsla Vilko er íslensk framleiðsla frá upphafi til enda þar sem kappkostað er að framleiða allar vörur á staðnum frekar en að vera aðeins innflytjandi og dreifigaraðili. Vissulega væri hagræðing í að láta framleiða fyrir okkur vörur erlendis og selja undir okkar vörumerki á Íslandi en stefnan hefur alltaf verið að framleiða sjálf allar vörur og velja bestu mögulegu hráefni hverju sinni. Sem dæmi má nefna Vilko vöfflur sem við framleiðum. Þar leggjum við áherslu á að nota íslensk hráefni eins og kostur er til að tryggja gæðin. Við notum alltaf mjólkurduft úr íslenskri mjólk, Kornax hveiti sem er malað og framleitt á Íslandi o.fl. Við framleiðslu sem þessa væri hægt að lækka framleiðslukostnað með því að kaupa vöfflublöndu tilbúna erlendis og pakka hér í okkar verksmiðju en það viljum við ekki gera. Við viljum íslenska framleiðslu og við viljum Vilko!!.

Mannauður
Starfsmannafjöldi Vilko á árinu 2020 var 15 stöðugildi. Tvö störf á skrifstofu við stjórnun og 13 stöðugildi við framleiðslu. Annars hugsum við okkar stöðugildi ekki svona kassalaga og allir starfsmenn ganga í öll verk á álagstímum.

Framtíðarsýn
Framtíðarsýn Vilko er áframhaldandi vöxtur á Blönduósi. Það var upphafleg markmið að skapa atvinnu með því að kaupa fyrirtækið á svæðið og þeirri stefnu verður haldið. Að sjálfsögðu getur okkar rekstur þróast í hliðar- eða undirstarfsemi í öðrum landshlutum í tengslum við dreifi- og sölukerfi Vilko en ræturnar verða alltaf hér á Blönduósi.
Það hefur sína kosti og galla að vera með matvælarekstur á Blönduósi. Gallarnir eru helst aukakostnaður sem samkeppnisaðilar okkar sleppa við á suðvesturhorni landsins tengt flutningi á vörum og hráefni. Hráefni kemur að stærstum hluta frá höfuðborgarsvæðinu og það svæði hefur einnig flesta neytendur á okkar vörum. Á þann hátt erum við að flytja mjög mikið fram og til baka sem tekur í heftið. Þegar talað er um höfuðborgasvæðið, á það líka við um innkaup erlendis frá sem fara oftast í gegnun hafnir í Reykjavík. Stór hluti af okkar hráefni kemur erlendis frá sem við kaupum milliliðalaust af framleiðendum í Evrópu. Við gerum kröfur um gott hráefni í okkar vörur og erum mest í viðskiptum við fyrirtæki með gæðavottanir í Þýskalandi, Danmörku og Svíþjóð.
Kostir þess að reka matvælafyrirtæki á Blönduósi er þó fleiri en gallarnir. Hér er umfram allt gott fólk sem er lykill að allri starfsemi fyrirtækja. Smæð þjappar fólki saman og eykur samtöðu um velferð Vilko. Húsnæðiskostnaður er hlutfallslega lægri út á landi svo það má vel finna jákvæða fleti á fyrirtækjarekstri á landsbyggðinni sem jafna út hærri flutninga. Við horfum björtum augum til framtíðar og erum tílbúin fyrir tækifæri framtíðarinnar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd