Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum

2022

Vinnslustöðin hf. í Vestmannaeyjum er í hópi umsvifamestu sjávarútvegsfyrirtækja landsins þegar þetta er skráð (apríl 2022).

Um Vinnslustöðina
Hluthafar eru um 230 talsins, flestir fyrrum útgerðarmenn í Eyjum eða starfsmenn félagins búsettir í Eyjum.
– Félagið á og gerir út 7 skip: togarann Breka, togbátana Brynjólf og Drangavík, netaskipið KAP II og uppsjávarskipin Hugin, Kap og Ísleif. Breki er fyrsta nýsmíði félagsins, smíði hans lauk í Kína 2018. Breki og Páll Pálsson ÍS eru systurskip, þau fyrstu í íslenska flotanum með stóra, hæggenga skrúfu (þvermál 4,7 metrar). Markmiðið með slíkri hönnun skipanna var að spara olíu og það gekk heldur betur eftir. Olíunotkun Breka á hvert kíló afla er 40% minni en annarra togara af sambærilegri stærð.
– Félagið rekur uppsjávarvinnsluhús sem tekið var í gagnið 2016. Þar er umfangsmikil vinnsla loðnu, loðnuhrogna, síldar og makríls.
– Félagið tók í notkun nýtt mjölhús á athafnasvæði sínu og nýja frystigeymslu, Kleifarfrost, á árunum 2015 og 2016. Kleifarfrost er stærsta hús Vestmannaeyja og rúmar 10.000-12.000 tonn af afurðum.
– Botnfiskvinnsla félagsins er einkum í saltfiski eftir að Vinnslustöðin keypti Grupeixe, vinnslu- og sölufyrirtæki fyrir saltfisk í Portúgal. Vinnslustöðin saltar þorsk og ufsa í Eyjum og afurðirnar eru fluttar á markaði í Portúgal, á Spáni og í Karabíska hafinu. Frysting botnfisks á vegum félagsins í Eyjum hefur dregist saman á sama tíma og saltfiskvinnsla eykst verulega.
– Vinnslustöðin á meirihluta í Marhólmum, félagi sem vinnur verðmætar útflutningsafurðir úr loðnuhrognum og þorskhrognum. Umsvif Marhólma hafa aukist mjög á fáum árum.
– Vinnslustöðin á hlut í Löngu, fyrirtæki í Eyjum sem þurrkar hausa og bein fyrir Nígeríumarkað.
– Vinnslustöðin á hlut í Iðunni Seafood, fyrirtæki í Eyjum sem sýður niður lifur til sölu á markaði í Evrópuríkjum.
– Vinnslustöðin keypti á árinu 2021 meirihluta í Hólmaskeri í Hafnarfirði, fyrirtæki sem sérhæfir sig í að handflaka ýsu, frysta og selja á markað á austurströnd Bandaríkjanna.

Erlenda starfsemin
Vinnslustöðin hóf árið 2003 að selja hluta afurða sinna milliliðalaust til viðskiptavina sinna erlendis. Fyrsti viðskiptavinur félagsins þá var Maruha Nichiro, langstærsta sjávarútvegstæki veraldar með höfuðstöðvar í Japan. Velta þess jafngildir þrefaldri veltu allra fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi.
Vinnslustöðin færði hratt út kvíar í markaðs- og sölustarfseminni og starfrækir nú söluskrifstofur í Portúgal, Frakklandi, Þýskalandi, Japan og Rússlandi. Segja má að engir milliliðir séu lengur í samskiptum Vinnslustöðvarinnar og viðskiptavina hennar. Það reynist bæði félaginu og kaupendum afurðanna til gæfu og gengis.
Dæmi um þetta er að Vinnslustöðin keypti á árinu 2017 hlut í loðnuframleiðslufyrirtækinu Okada Suisan í Yamaguchi í Japan. Þar með tengdist félagið enn betur markaði Japana fyrir loðnuafurðir og styrkti bein samskipti og viðskipti við markað sem reynst hefur Eyjamönnum mikilvægur og farsæll um áratuga skeið.
Í febrúar 2022 keypti dótturfélag Vinnslustöðvarinnar í Þýskalandi lítið fiskvinnslu- og sölufyrirtæki þar, Rheinland, með það að markmiði að styrkja markaðsstarfsemi þar um slóðir, einkum hvað varðar sölu á karfa.
Markmið fjárfestinga í Grupeixe í Portúgal, Okada Susian í Japan og Rheinland í Þýskalandi er eitt og hið sama, það er að auka vinnsluvirði sjávarafurða sem eiga uppruna sinn á Íslandsmiðum. Þannig er jafnframt stuðlað að því að samþætta starfsemi félags sem ræður yfir ferlinu frá veiðum til vinnslu, sölu og markaðsmála á mörkuðum í flestum heimsálfum.

Sögumolar
Alls 105 útvegsmenn stofnuðu Vinnslu- og sölumiðstöð fiskframleiðenda í Vestmannaeyjum 30. desember 1946 og „sameinuðust um fiskvinnslu til hagsbóta fyrir sig og byggðarlagið“. Sú stefnuyfirlýsing hefur átt við Vinnslustöðina alla tíð. Með stofnun félagsins var meðal annars brugðist við verðfalli á ferskum fiski í Englandi á stríðsárunum.
Nafni félagsins var breytt árið 1953 og síðan þá hefur það heitið Vinnslustöðin. Hún var stofnuð sem samlagsfélag en varð síðar hlutafélag. Félagið starfaði framan af eingöngu í fiskvinnslu en árið 1976 urðu kaflaskil þegar Vinnslustöðin, Fiskiðjan og Ísfélag Vestmannaeyja stofnuðu útgerðarfyrirtækið Klakk og keyptu fyrsta togarann, Klakk. Í janúar 1980 tók Vinnslustöðin þátt í að stofna útgerðarfélagið Samtog sem gerði út togara næstu árin. Samtog var lagt niður 1990. Vinnslustöðin eignaðist þá Breka en Fiskiðjan Sindra og Klakk.
Árið 1992 var örlagaár í sögu Vestmannaeyja þegar flestar stærri fiskvinnslustöðvar Eyjanna voru sameinaðar undir merkjum Vinnslustöðvarinnar annars vegar og Ísfélagsins hins vegar. Þá sameinuðust Fiskiðjan, Fiskimjölsverksmiðjan – FIVE, Lifrarsamlagið, Gunnar Ólafsson & Co. og Knörr undir merkjum Vinnslustöðvarinnar.
Á árinu 1994 seldu Bjarni Sighvatsson og fjölskylda Íslenskum sjávarafurðum hf. hlut sinn í Vinnslustöðinni. Íslenskar sjávarafurðir, Olíufélagið hf. og Vátryggingafélag Íslands hf. urðu þar með stærstu hluthafar félagsins. Í kjölfarið var Meitillinn í Þorlákshöfn sameinaður félaginu 1996.
Miklir erfiðleikar steðjuðu að Vinnslustöðinni árið 1999. Félagið var endurskipulagt og öllum deildum þess lokað sem skiluðu tapi. Við þessar ráðstafanir misstu 170 af 320 starfsmönnum vinnuna, í Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn.
Frá 2000 hefur rekstur félagsins gengið vel og hefur það vaxið og dafnað með kaupum og við að sameinast öðrum útgerðarfélögum. Þannig sameinaðist Gandí ehf. (gerði út línuskipið Gandí VE), Vinnslustöðinni árið 2000 og Úndína (gerði út togbátinn Björgu VE) árið 2002.

Árið 2003 sameinaðist Ísleifur ehf., er gerði út samnefndan loðnubát, Vinnslustöðinni og síðar Ufsaberg, sem gerði út togbátinn Gullberg VE, árið 2014.
Árið 2013 var Útgerðarfélagið Stígandi keypt, það gerði út samnefndan togbát.
Árið 2017 var Útgerðarfélagið Glófaxi keypt, það gerði út samnefndan netabát.
Þá keypti Vinnslustöðin útgerðarfélagið Hugin ehf. árið 2021 og þar með fjölveiðiskipið Hugin VE og aflaheimildir í síld, loðnu, kolmunna og makríl. Vinnslustöðin átti fyrir 48% í Hugin en eignaðist þarna félagið allt.

Eyjamenn í meirihluta í eigendahópnum
Vinnslustöðin gekk í gegnum erfiðleikaskeið á síðustu árum 20. aldar og allur rekstur félagsins var endurskipulagður 1999. Í lok árs 2002 urðu breytingar í hluthafahópnum og meirihluti eignarhalds í félaginu var á ný á forræði Eyjamanna. Heimamenn í Eyjum eiga nú um tvo þriðju hluta í Vinnslustöðinni hf. en FISK-Seafood ehf. á Sauðárkróki á þriðjungshlut eftir að félagið gerðist meðeigandi Eyjamanna á árinu 2018.

2012

Vinnslustöðin hf. (VSV) er annað tveggja stærstu fyrirtækjanna í Vestmannaeyjum og eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Vinnslustöðin er hluti af sögu atvinnu- og mannlífs í Eyjum, félag með ríkar hefðir og ábyrgð gagnvart umhverfi sínu og samfélagi.
Fyrirtækið gerir út skip til uppsjávarveiða, netaveiða, humarveiða og togveiða og eitt frystiskip að auki, alls 10 skip. Það starfrækir salfiskverkun, humarvinnslu, vinnslu fersks/frosins botnfisks og uppsjávarfisks, fiskimjölsverksmiðju, frystigeymslu, netaverkstæði og sölu- og markaðssvið.
Fastráðnir starfsmenn eru nú um 330 talsins (febrúar 2012) en þegar umsvifin voru hvað mest á árinu 2011 voru starfsmenn mun fleiri. Þannig voru gefnir út yfir 500 launaseðlar í júlímánuði 2011, fleiri en nokkru sinni fyrr í 65 ára sögu fyrirtækisins.
Samstæða Vinnslustöðvarinnar er mynduð af móðurfélaginu VSV og þremur dótturfélögum: sölufélögunum About fish ehf. og About fish GmbH og Skipaafgreiðslu Vestmannaeyja.

Eignarhald og stjórnendur
Hluthafar í Vinnslustöðinni hf. voru alls 258 í desember 2011. Stærsti hluthafinn var Stilla útgerð ehf., félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns frá Rifi. Næststærsti hluthafinn var Seil ehf., félag í eigu Haraldar Gíslasonar, Kristínar Elínar Gísladóttur og Sigurgeirs Brynjars Kristgeirssonar í Vestmannaeyjum.
Félög í eigu Vestmannaeyinga sjálfra og einstaklingar í Eyjum áttu í lok árs 2011 liðlega tvo þriðju hlutafjár í Vinnslustöðinni en Guðmundur og Hjálmar Kristjánssynir frá Rifi áttu tæplega þriðjung sjálfir eða í gegnum félög í sinni eigu.
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson er framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar og tók við starfinu í mars 1999. Hann er hagfræðingur að mennt og kom fyrst til starfa í fyrirtækinu 1996, þá með aðsetur í Þorlákshöfn. Aðrir æðstu stjórnendur fyrirtækisins eru (febrúar 2012): Sindri Viðarsson sjávarútvegsfræðingur (uppsjávarsvið), Jón Þór Klemensson sjávarútvegsfræðingur (bolfisksvið), Elís Jónsson, rafmagnstæknifræðingur með meistarapróf í verkefnastjórnun (rekstrarsvið), Andrea Atladóttir viðskiptafræðingur (fjármálasvið), Gunnar Aðalbjörnsson fisktæknir (umbóta- og gæðasvið) og Kristinn Hjálmarsson, heimspekingur með MBA-gráðu (sölu- og markaðssvið).

Rótgróið Eyjafyrirtæki
Upphaf Vinnslustöðvarinnar er rakið til þess þegar 105 útvegsmenn í Eyjum komu saman 30. desember 1946 og stofnuðu Vinnslu- og sölumiðstöð fiskframleiðenda til hagsbóta fyrir sig og byggðarlagið. Nafninu var breytt í Vinnslustöðin árið 1952, um leið og félagið var gert að hlutafélagi. Félagið óx og dafnaði næstu árin en 23. janúar 1973 lagðist öll starfsemin óvænt af þegar eldgos hófst á Heimaey. Stjórn félagsins hittist í Reykjavík í maí 1973 og ákvað að Vinnslustöðin myndi byrja að taka á móti fiski til söltunar. Í október sama ár hófst svo fiskvinnsla til frystingar á ný í Vinnslustöðinni.
Umtalsverðar sviptingar urðu í eignarhaldi félagsins þegar leið á 20. öldina. Þannig urðu Íslenskar sjávarafurðir hf., Olíufélagið hf. og Vátryggingarfélag Íslands hf. stærstu hluthafar þess árið 1992. Í lok árs 1996 sameinaðist Meitillinn hf. í Þorlákshöfn Vinnslustöðinni og fyrirtækið rak fiskvinnslu í Þorlákshöfn þar til í júní 1999 að það seldi hús og tæki. Vinnslustöðin glímdi við mikla rekstrarerfiðleika um þessar mundir og í maí 1999 var fjölda starfsmanna sagt upp. Af liðlega 300 á launaskrá þá mættu einungis 150 manns til starfa 1. september sama ár. Þetta voru afar erfiðir tímar en smám saman tókst að styrkja reksturinn og grunnstoðir félagsins á nýjan leik og í lok árs 2002 eignuðust Eyjamenn meirihluta í Vinnslustöðinni og hafa nú liðlega tvo þriðju eignarhaldsins á forræði sínu.
Rekstartekjur VSV hafa farið stigvaxandi frá því að félagið tók að styrkjast eftir erfiðleika í lok síðustu aldar, eins og sést á meðfylgjandi línuriti um rekstrartekjur. Reksturinn hefur skilað hagnaði alla tíð síðan þá, að árinu 2008 undanskildu þegar íslenska fjármálakerfið hrundi.

Nálægð við mið og markað
Vinnslustöðin er vel í sveit sett gagnvart gjöfulum fiskimiðum og helstu mörkuðum sínum, á meginlandi og í norðanverðri Evrópu. Félagið seldi afurðir sínar áður í gegnum sölusamtök en hefur tekið sölu- og markaðsmálin í eigin hendur og annast sjálft nánast öll viðskipti og samskipti við erlenda viðskiptavini sína. Fjórar tegundir botnfiska eru teknar til vinnslu í fiskiðjuveri Vinnslustöðvarinnar: karfi, þorskur, ufsi og ýsa. Vinnslustöðin er umsvifamikil í veiðum og vinnslu loðnu, makríls og síldar og sömuleiðis í veiðum og vinnslu humars, verðmætustu sjávarafurðar sem Íslendingar flytja úr landi.
Vinnslustöðin hafði frumkvæði að því að stofna til yfirgripsmikilla rannsókna á veiðisvæðum, veiðum, vinnslu og markaðsmálum humars í því skyni að auka arðsemi veiða og vinnslu en umgangast jafnframt þessa mikilvægu sjávarauðlind af virðingu og ábyrgð. Þetta var samstarfsverkefni Vinnslustöðvarinnar og Háskóla Íslands með þátttöku m.a. erlendra háskóla.

 

2002

1992

1946

Það var árið 1946 að nokkrir útgerðarmenn í Vestmannaeyjum bundust samtökum og stonuðu sitt eigið fyrirtæki til að vinna á sjávarafla þeirra. Fyrirtækið hlaut nafnið VINNSLUSTÖÐIN og var rekið sem sameignarfélag allt til ársins 1961 er því var breytti í hlutafélag.

Fyrstu árin var eingöngu um frystingu og söltun afla félagsmanna að ræða en öflug uppbygging í vélum og húskosti gerði Vinnslustöðinni kleift að kaupa og vinna afla annarra sjómanna. Vegna mikillar vinnu, en starfsmenn fyrirtækisins gátu orðið allt að 600 þegar best lét, var ráðist í byggingu verbúðar sem hýst gat allt að 120 starfsmenn.

Fyrsti forstjóri Vinnslustöðvarinnar var Jóhann Sigfússon. Er hann lét af störfum 1958 tók Sighvatur Bjarnason við starfi hans og gegndi því til ársins 1975. Má segja og sterk staða fyrirtækisins sé að miklu leyti fyrirhyggju og atorku þeirra að þakka.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd