Vinnueftirlitið

2022

Saga vinnuverndar á Íslandi
Þegar vélvæðing og iðnaður hófst á Íslandi urðu einstaklingar og þjóðfélagið í heild að grípa til aðgerða til að forða starfsfólki frá slysum og hafa augun opin gagnvart óhollustu við störf eftir því sem þekking og þróun jókst. Lög um eftirlit með verksmiðjum og vélum voru fyrstu lögin um vinnuvernd sem öðluðust gildi 1. júlí 1928. Þessi lög voru ekki efnismikil og var því véltæknifræðingurinn Þórður Runólfsson fenginn til að semja allsherjar reglugerð fyrir skoðunarmenn til að starfa eftir ásamt reglugerð um eftirlit með lyftum. Eftirlitinu var komið á laggirnar 9. júní 1929 þegar tveir skoðunarmenn voru settir til starfa, annar var sá fyrrnefndi og hinn var fyrrverandi kaupmaður. Skrifstofa eftirlitsins var í einu herbergii að Vesturgötu 17. Skoðunarmennirnir fóru í fyrstu eftirlitsferðina um miðjan júní 1929 með strandferðaskipi, vestur um land til Akureyrar. Farið var í stærstu fyrirtækin og fyrst um sinn var eftirlitinu ekki tekið vel af eigendum fyrirtækjanna þar sem þeim fannst þetta óþarfi en með tímanum vöndust eigendur á skoðanir eftirlitsmanna. Fljótlega varð Þórður einn eftir sem skoðunarmaður og var hann fenginn til að taka að sér að reka eftirlitið sem einskonar einkastofnun undir yfirumsjón Geirs Zoëga vegamálastjóra. Með óbreyttu fyrirkomulagi var eftirlitið starfrækt næstu árin. Tala fyrirtækja sem skoðuð voru á árunum 1932-35 var frá 130 upp í 150. Í lok ársins 1939 var tala skoðaðra og eftirlitsskyldra fyrirtækja orðin 248. Starfið var því orðið fremur viðamikið fyrir einn mann og var skoðunarstjóri skipaður og auk þess skoðunarmenn í Reykjavík, Vestmannaeyjum, á Vestfjörðum, Siglufirði, Ólafsfirði, Akureyri og Austfjörðum. Skrifstofunni var komið fyrir í Austurstræti 12 síðla árs 1942. Kröfurnar til eftirlitsins fóru ört vaxandi og var því skrifstofan höfð opin alla virka daga.

Öryggiseftirlit ríkisins sem varð síðar Vinnueftirlit ríkisins
Árið 1947 var skipuð nefnd af ráðherra sem hafði það hlutverk að semja ný lög fyrir eftirlitið og tók nefndin saman frumvarp til laga um öryggisráðstafanir á vinnustöðum sem var staðfest af forseta Íslands 1. febrúar 1952. Samkvæmt þeim átti eftirlitið að kallast Öryggiseftirlit ríkisins og forstöðumaður þess öryggismálastjóri. Þann 1. janúar 1981 tóku lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum gildi. Þau leystu af hólmi eldri lög frá árunum 1952 og 1928. Með þessum nýju lögum var Vinnueftirlit ríkisins sett á laggirnar og síðan þá hefur það tekið við allri starfsemi og aðstöðu Öryggiseftirlits ríkisins og hluta af verkefnum heilbrigðisnefnda auk nýrra verkefna sem lögin hafa kveðið á um. Aðalskrifstofa Vinnueftirlitsins var flutt að Bíldshöfða 16 í október 1986 og síðar var aðsetur hennar flutt að Dvergshöfða 2 í maí 2017. Á öðrum landssvæðum, þ.e. Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Selfossi og Reykjanesbæ, rekur Vinnueftirlitið einnig skrifstofur. Í ársbyrjun 2018 eru skoðunarskyld fyrirtæki orðin tæplega 14.000 og eru starfsmenn Vinnueftirlitsins þá orðnir 77 talsins.

Skipuritið tók gildi 2019. Þarna sjást sviðin þrjú, deildarskipting undir sviðum og stoðdeildir.

Hlutverk Vinnueftirlits ríkisins
Vinnueftirlitið er stofnun ríkisins. Verkefni þess eru m.a. að leiðbeina fyrirtækjum, stofnunum, félögum og starfsmönnum um hvað þurfi að bæta í vinnuumhverfinu. Þá sér Vinnueftirlitið um að afla og viðhalda þekkingu á tæknilegri og félagslegri þróun í þeim tilgangi að efla öryggi og bæta hollustuhætti og aðbúnað í starfsumhverfinu. Hlutverk Vinnueftirlitsins er að tryggja að allir komi heilir heim úr vinnu. Við vitum að slysin gera boð á undan sér og það er hægt að hanna burt hætturnar í vinnuumhverfinu. Vinnueftirlitið sinnir í dag eftirliti með vinnuumhverfi vinnustaða og með vinnuvélum og tækjum. Vinnueftirlitið ber ábyrgð á að viðeigandi fyrirmæli um úrbætur séu gefin og eftir atvikum að þvingunaraðgerðum sé beitt sé slíkum fyrirmælum ekki sinnt eða bráð hætta er yfirvofandi. Vinnueftirlitið stendur fyrir margþættu fræðslustarfi og veitir upplýsingar um það sem snýr að vinnuvernd og er þekkt fyrir að vera bæði leiðandi og leiðbeinandi á þeim vettvangi. Rannsóknir og skráningar á vinnuslysum og á sviði atvinnusjúkdóma og atvinnutengdrar heilsu hafa beint athyglinni að þeim þáttum sem líklegastir eru til að skila árangri. Áhersla er á forvarnir og heilsueflingu á vinnustöðum og hefur Vinnueftirlitiðð með aðgerðum sínum lagt lóð á vogarskálarnar við að draga úr atvinnutengdu heilsutjóni og þar með stuðlað að aukinni framleiðni á innlendum vinnumarkaði. Samvinna við stjórnendur hefur leitt til þess að þeir taka í auknum mæli ábyrgð á að bæta öryggismenningu og stuðla að góðu, öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi í daglegum rekstri vinnustaða sinna. Með skráningu vinnuslysa hefur fengist betri sýn á orsakir þeirra og umfang og þar með tækifæri til forvarna. Skráningu atvinnusjúkdóma hefur til skamms tíma verið áfátt og er þar áskorun til framtíðar að bæta hana til að efla möguleika til forvarna enn frekar. Með öflugum áskorunum og öflugu samstarfi við hagsmunaaðila hefur árangur náðst í að fyrirbyggja slys og sjúkdóma sem eiga sér rætur í starfsumhverfinu. Þetta er eilífðar samstarf allra vinnandi manna, sem kallar á samstarf margra aðila til að tryggja þau sjálfsögðu mannréttindi að allir komi heilir heim úr vinnu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd