Vinnumálastofnun heyrir undir félagsmálaráðuneytið og fer m.a. með yfirstjórn vinnu-miðlunar í landinu og daglega afgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofs-sjóðs, Ábyrgðasjóðs launa auk fjölmargra annarra vinnumarkaðstengdra verkefna. Starfsemi stofnunarinnar hófst formlega 1. júlí 1997. Vinnumálastofnun rekur níu þjónustuskrifstofur í kringum landið þar sem veitt er öll almenn þjónusta við atvinnuleitendur, skráning, mat á færni, ráðgjöf og úrræði og vinnumiðlun auk samvinnu við aðra þjónustuaðila um úrræði og vinnumarkaðsaðgerðir.
Félags- og barnamálaráðherra skipar tíu manna stjórn Vinnumálastofnunar að fengnum tilnefningum til fjögurra ára í senn. Stjórn stofnunarinnar skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar. Þá skipar ráðherra svæðisbundin vinnumarkaðsráð sem skulu vera hlutaðeigandi þjónustustöðvum Vinnumálastofnunar til ráðgjafar um skipulag og val á vinnumarkaðsúrræðum.
Helstu verkefni Vinnumálastofnunar:
Atvinnuleysistryggingasjóður
Samkvæmt lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar skal Vinnumálastofnun halda skrá yfir laus störf sem í boði eru á landinu öllu, miðla upplýsingum um laus störf til atvinnuleitenda og veita þeim aðstoð við að finna störf við hæfi. Jafnframt er atvinnurekendum veitt aðstoð við ráðningu starfsfólks og þeim veittar upplýsingar um framboð á vinnuafli hverju sinni. Stofnunin er hluti af evrópsku samstarfsneti opinberra vinnumiðlana, EURES og getur stofnunin því ekki aðeins aðstoðað atvinnurekendur við leit að hæfu starfsfólki innanlands heldur í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins kjósi atvinnurekendur þess.
Vinnumálastofnun sér einnig um útreikning og greiðslu atvinnuleysistrygginga til atvinnuleitenda, annast skipulag vinnumarkaðsúrræða, s.s. námskeiða, starfsúrræða, ráðgjöf, námsúrræða og atvinnutengdrar endurhæfingar.
Vinnumálastofnun ber að leggja mat á vinnufærni atvinnuleitanda þegar hann sækir um greiðslur atvinnuleysisbóta og þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Á grundvelli matsins er gerð áætlun um atvinnuleit hans og þátttöku í viðeigandi úrræðum hjá stofnuninni eða honum leiðbeint um aðra þjónustu ef þörf er talin á. Þjónusta ráðgjafa Vinnumálastofnunar miðast því við einstaklingsbundnar þarfir hvers og eins atvinnuleitanda eins og unnt er.
Þá heldur stofnunin utan um margvíslegar greiningar og tölfræði er snýr að innlendum vinnumarkaði, framboði og samsetningu vinnuafls, mannaflaþörf innanlands, framtíðarhorfur og þróun atvinnuástands. Eru greiningar stofnunarinnar birtar með reglubundnum hætti á vef stofnunarinnar. Eru slíkar greiningar veigamikill þáttur við mat á framboði úrræða á vegum stofnunarinnar hverju sinni og hvernig þjónustu stofnunarinnar er hagað til samræmis við þarfir vinnumarkaðarins á hverjum tíma.
Fæðingarorlofssjóður
Fæðingarorlofssjóður er í vörslu Vinnumálastofnunar sem sér um reikningshald og daglega afgreiðslu sjóðsins í umboði félags- og barnamálaráðherra. Megin verkefni Fæðingarorlofssjóðs er að ákvarða og annast greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi og fæðingarstyrk samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 sem og að veita ráðgjöf og upplýsingar um réttindi foreldra til greiðslna. Þá hefur sjóðurinn umsjón með ættleiðingarstyrkjum og veitir upplýsingar um foreldraorlof. Hægt er að sækja um greiðslur með rafrænum hætti á vefslóðinni: www.vinnumalastofnun.is/faedingarorlofssjodur.
Ábyrgðasjóður launa
Ábyrgðasjóður launa er sjálfstæður sjóður í vörslu Vinnumálastofnunar sem sér um daglega afgreiðslu sjóðsins í umboði félags- og barnamálaráðherra. Megin verkefni sjóðsins er ábyrgð á kröfum launamanna um vangoldin laun í kjölfar gjaldþrots vinnuveitanda. Þá greiðir sjóðurinn, í tengslum við gjaldþrot vinnuveitanda, bætur vegna slita á ráðningarsamningi, ógreitt orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrissjóðsiðgjöld. Ábyrgð sjóðsins er háð því skilyrði að kröfurnar hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti. Hægt er að sækja upplýsingar um afgreiðslu sjóðsins á vefslóðinni : www.vinnumalastofnun.is/abyrgdarsjodur-launa
Önnur verkefni
Vinnumálastofnun sinnir ýmsum öðrum verkefnum er snúa að innlendum vinnumarkaði. Má þar nefna úrvinnslu og útgáfu atvinnuleyfa til erlendra ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins auk eftirlits með atvinnuþáttöku þeirra hér á landi. Þá hefur stofnunin umsjón og eftirlit með starfsemi starfsmannaleigna, útsendra starfsmanna og erlendra þjónustufyrirtækja hér á landi. Heldur stofnunin utan um skráningar slíkrar starfsemi og hvort að réttindi starfsmanna á þeirra vegum séu virt. Skráning slíkrar starfsemi fer fram með rafrænum hætti á vefslóðinni www.posting.is
Atvinnumál kvenna
Loks má nefna að Vinnumálastofnun sér um framkvæmd verkefnisins Atvinnumál kvenna auk vörslu Svanna – lánatryggingasjóðs til kvenna. Verkefnið Atvinnumál kvenna miðar að því að auka þátttöku kvenna í viðskiptum og auka aðgengi kvenna að fjármagni. Nánari upplýsingar um verkefnið má sækja á vefslóðinni www.atvinnumalkvenna.is. Þá hefur stofnunin séð um framkvæmd Evrópuverkefna sem hafa haft það að markmiði að efla atvinnuþáttöku og frumkvöðlastarf kvenna af erlendum uppruna og frumkvöðlastarf kvenna í smærri byggðalögum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd