Í kjarasamningum í febrúar 2008 sömdu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar á Íslandi. Í framhaldinu var sjálfseignarstofnunin VIRK Starfsendurhæfingarsjóður stofnuð þann 19. maí og hóf starfsemi sína í ágúst 2008.
Í byrjun árs 2009 komu síðan opinberir atvinnurekendur og stéttarfélög opinberra starfsmanna að VIRK sem stofnaðilar. VIRK varð þar með fyrsta stofnunin sem allir helstu aðilar vinnumarkaðarins á Íslandi stóðu saman að. Árið 2012 bættust lífeyrissjóðir í hópinn og 2015 var samið um aðkomu ríkisvaldsins að VIRK.
Markmið og tilgangur VIRK
Hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði.
Tilgangur með þjónustu á vegum VIRK er að aðstoða fólk við að komast til vinnu. Um er að ræða markvissa einstaklingsmiðaða ráðgjöf og þjónustu á sviði starfsendurhæfingar sem krefst fullrar þátttöku viðkomandi einstaklings.
Markmið VIRK er að draga markvisst úr líkum á því að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku.
Rétt á þjónustu VIRK eiga þeir einstaklingar sem ekki sinnt starfi sínu að hluta eða öllu leyti eða tekið þátt á vinnumarkaði vegna hindrana af völdum heilsubrests og eru með beiðni eða vottorð frá lækni og hafa það að markmiði að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði eða að auka þátttöku sína á vinnumarkaði.
Starfsemi VIRK
VIRK vinnur að starfsendurhæfingu samkvæmt lögum 60/2012 í samstarfi við stéttarfélög, atvinnurekendur, lífeyrissjóði, þjónustuaðila í starfsendurhæfingu og stofnanir velferðarkerfisins. Starfsemi VIRK er fjármögnuð af atvinnurekendum, lífeyrissjóðum og ríkisvaldinu samkvæmt lögum 60/2012.
VIRK hefur byggt upp þverfaglegan starfsendurhæfingarferil, persónulega ráðgjöf og þjónustu sem hefur það markmið að koma einstaklingum til vinnu. VIRK leggur mjög mikið uppúr góðu samstarfi við aðrar stofnanir innan velferðarkerfisins.
Þjónusta VIRK er til staðar á öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins, er einstaklingsmiðuð og einstaklingum að mestu að kostnaðarlausu.
Á vegum VIRK starfa á sjötta tug sérhæfðra starfsendurhæfingarráðgjafa og atvinnulífstengla sem staðsettir eru hjá stéttarfélögum víða um land sem fylgja notendum þjónustunnar allan starfsendurhæfingarferilinn og hvetja þá áfram.
VIRK á í miklu og góðu samstarfi við fagfólk um allt land, leggur áherslu á að nýta fagfólk á hverju svæði fyrir sig og þróa úrræði sem henta þeim fjölbreytta hópi sem nýtir sér þjónustu VIRK. Um 500 þjónustuaðilar um allt land eru í samstarfi við VIRK og keypt var þjónusta af þeim fyrir einstaklingana í starfsendurhæfingu fyrir um 1,5 milljarð króna árið 2020. Starfsemi VIRK er í stöðugri þróun og nýjustu þættirnir í starfseminni snúa að forvörnum og atvinnutengingu.
Í byrjun árs 2018 ýtti VIRK úr vör forvarnarverkefninu VelVIRK. Markmið verkefnisins er að styðja við starfsmenn og stjórnendur til að sporna við brotthvarfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests sem hægt er að rekja til langvarandi álags bæði í starfi og einkalífi.
Atvinnutenging í starfsendurhæfingu hefur verið aukin hjá VIRK með tilkomu sérstakra atvinnulífstengla sem eru í virku samstarfi við fyrirtæki og stofnanir um allt land. Markmiðið er að aðstoða sérstaklega þá einstaklinga sem ekki hafa fulla vinnugetu í lok starfsendurhæfingarferlis hjá VIRK og þurfa því sértæka og aukna aðstoð út á vinnumarkaðinn.
Árangur og ávinningur
Einstaklingar sem leita til VIRK eru í öllum starfsstéttum, á öllum aldri og með fjölbreytta menntun og reynslu. Yfir 80% þeirra hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma og/eða stoðkerfisvandamála. Undir lok árs 2020 hafa tæplega 20.000 einstaklingar byrjað starfsendurhæfingu á vegum VIRK. 2.700 einstaklingar voru þá í starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK um allt land. Árangur og ávinningur af starfsemi VIRK – fjárhagslegur og samfélagslegur – er mjög mikill þar sem starfsemin hefur skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði. 77% þjónustuþeganna sem útskrifast hafa, sem lokið hafa starfsendurhæfingu, frá VIRK eru virkir á vinnumarkaði við útskrift; þ.e. í vinnu, í atvinnuleit eða lánshæfu námi. Talnakönnun hf. hefur metið ávinninginn af starfsemi VIRK frá árinu 2013. Útreikningar Talnakönnunar sýna að 21,3 miljarða ávinningur var af starfseminni 2020 og reiknaður meðalsparnaður samfélagsins á hvern útskrifaðan einstakling úr starfsendurhæfingu á vegum VIRK var 13,3 milljónir það ár. Öllum einstaklingum sem útskrifast frá VIRK er boðið að taka þátt í þjónustukönnun þar sem þeir eru beðnir um að svara spurningum um þjónustuna og einstaka þætti hennar. Niðurstöðurnar sýna að þjónustuþegarnir telja að þjónusta VIRK hafi haft mikil áhrif á stöðu þeirra. Við lok þjónustu er sjálfsmynd þeirra sterkari, starfsgeta meiri og líkamleg og andleg heilsa betri.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd