Vísir hf.

2022

Vísir hf. er rótgróið, kröftugt og framsækið íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki sem sinnir öllu í senn útgerð, vinnslu og sölu. Fyrirtækið leggur ríka áherslu á ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði. Vísir býr yfir góðum skipaflota útbúnum til línuveiða og rekur saltfiskvinnslu og frystihús í Grindavík. Fyrirtækið framleiðir fjölbreyttar afurðir fyrir breiðan hóp kröfuharðra viðskiptavina vítt og breitt um heiminn. Hjá Vísi starfa um 300 manns sem leikið hafa stórt hlutverk í farsælum rekstri fyrirtækisins og tekið virkan þátt í þeirri miklu tækniþróun sem átt hefur sér stað í íslenskum sjávarútvegi á síðustu árum.

Sagan
Fjölskyldufyrirtækið Vísir hóf starfsemi sína í Grindavík þann 1. desember árið 1965. Aðalstofnandi þess og forstjóri til margra ára var Páll Hreinn Pálsson. Hann fæddist í Reykjavík árið 1932 og ólst upp á Þingeyri við Dýrafjörð. Þar bjó fjölskylda hans alla tíð, í hjarta þorpsins, að Aðalstræti 4. Foreldrar hans voru Jóhanna Daðey Gísladóttir og Páll Jónsson, skipstjóri. Þau hjónin gerðu út bátana Fjölni ÍS 7 og Hilmi ÍS 39, en Páll fórst sviplega með þeim síðarnefnda á Faxaflóa árið 1943. Þrátt fyrir þetta mikla andstreymi hélt fjölskyldan ótrauð áfram. Jóhanna Daðey gerði Fjölni áfram út til síldveiða og fiskflutninga þar til hann sökk eftir árekstur við enskt póstskip árið 1945. Páll yngri var aðeins ellefu ára þegar hann hóf störf sem léttadrengur á Fjölni. Síðan leiddi eitt af öðru í sjómennskunni og árið 1953 útskrifaðist hann úr Stýrimannaskólanum. Sama ár keypti hann, í félagi við aðra, 100 tonna bát sem hlaut nafnið Fjölnir ÍS 177 og var gerður út á línu.
Árið 1955 kvæntist Páll, Margréti Sighvatsdóttur frá Ragnheiðarstöðum í Flóa. Þau hjónin settust að í Keflavík en fluttu til Grindavíkur eftir stofnun Vísis árið 1965. Í fyrstu bjuggu þau með börnum sínum á efri hæð fiskvinnslunnar og hjálpuðust að við að koma rekstrinum af stað. Margrét sá til dæmis oft um að elda handa starfsmönnum fyrirtækisins ásamt því að hugsa um börnin þeirra sex, sem fóru snemma að taka þátt í vinnslunni. Börn Páls og Margrétar eru Margrét, Páll Jóhann, Pétur Hafsteinn, Kristín Elísabet, Svanhvít Daðey og Sólný Ingibjörg, sem öll hafa komið að rekstri fyrirtækisins á einn eða annan hátt, ásamt mökum sínum. Páll Hreinn Pálsson var forstjóri félagsins allt til ársins 2000 og eftir það stjórnarformaður allt þar til hann lést, árið 2015. Árið 2001 var hann sæmdur heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í sjávarútvegi og fiskvinnslu.

Útgerð
Veiðistefna Vísis byggist á línuútgerð, rekjanleika og öflugri sóknarstýringu. Rekjanleikinn gefur nákvæmar upplýsingar um framleiðsluferilinn og eru allar afurðir rekjanlegar niður á veiðislóð hvers skips. Með þessu rekjanleikakerfi er einnig hægt að stýra bátunum í það hráefni sem markaðurinn þarf hverju sinni, miðað við veiðireynslu síðustu ára. Þannig nýtir fyrirtækið best aflaheimildir sínar og hámarkar verðmæti þeirra. Gert er út allan ársins hring til að tryggja stöðugan aðgang að afurðum. Vísir gerir út fimm stór línuskip og tvo minni báta. Línuskipin eru Fjölnir GK 157, Jóhanna Gísladóttir GK 557, Kristín GK 457, Sighvatur GK 57, Páll Jónsson GK 7 og bátarnir eru Daðey GK 777 og Sævík GK 757.
Öll eru skipin búin sjálfvirkum beitningarvélum og eru endurnýjuð reglulega svo að þau séu ávallt búin bestu fáanlegum tækjum. Árið 2019 kom fyrsta nýsmíði fyrirtækisins, nýr Páll Jónsson GK 7, til Grindavíkur og leysti af hólmi eldra skip Vísis með sama nafni. Hinn nýi Páll Jónsson er fyrsta íslenska línuskipið með sjálfvirku rekkakerfi en það léttir á álagi og vinnu um borð. Nýja skipið mun því styðja enn betur við stefnu fyrirtækisins um ábyrgar veiðar, hátæknivinnslu og vörugæði.

Vinnsla og verkun
Vísir er með tvenns konar vinnslu: hefðbundna saltfiskverkun og frystihús, þar sem úrval sjávarafurða er fullunnið úr fyrsta flokks hráefni. Algengustu fisktegundirnar eru þorskur, ýsa, keila og langa ásamt steinbít, blálöngu og ufsa, sem kemur þó í hús í minna mæli. Í kringum 18.000 tonn af hráefni fara í gegnum vinnslurnar á ári hverju. Ör tækniþróun síðustu ára hefur ýtt undir samfellt vinnsluferli, allt frá veiðum til endanlegra afurða, auk þess hafa ný tæki aukið gæði afurða, leyst af hólmi erfiðustu störfin og minnkað álag á starfsfólki.
Verkun saltfisks hefur verið ein helsta stoðin í Vísi frá stofnun fyrirtækisins og hefur saltfiskvinnslan verið rekin í sama húsnæðinu í Grindavík alla tíð. Þó hefur búnaðurinn tekið miklum breytingum á þessum tíma og mikið rannsóknar- og þróunarstarf verið unnið til þess að verkunin varðveiti gæði hráefnisins sem best. Framleiðslan á þessari hefðbundnu vöru er mjög framsækin og sérhæfð og því rata afurðirnar inn á bestu markaði í sunnanverðri Evrópu.
Frystihús Vísis er eitt af tæknivæddustu vinnsluhúsum á landinu og vel útbúið til að framleiða fjölbreyttar afurðir, bæði ferskar og frystar. Vísir hefur átt afar farsælt samstarf við mörg íslensk tæknifyrirtæki og frystihúsið ber þess glöggt merki, þar sem framleiðslan byggist á íslensku hugviti, hönnun og framleiðslu. Ný tegund af skurðarvélum var þróuð á sama tíma og frystihúsið var byggt árið 2014 og var það upphafið að einni mestu sjálfvirknivæðingu sem sést hefur um áraraðir í fiskvinnslunni. Árið 2019 kom síðan fyrsti róbótinn inn í vinnsluna. Hann raðar fiskbitum í kassa af mikilli nákvæmni og léttir það mikið á starfsfólki. Þannig heldur þróunin áfram og tæknin leysir af hólmi einhæf og erfið störf á sama tíma og störfum í gæðaeftirliti og vélstjórn fjölgar.

Hágæða afurðir
Vísir framleiðir fiskafurðir fyrir kröfuharða neytendur sem sækjast eftir fyrsta flokks íslensku hráefni. Fiskurinn er veiddur og unninn eftir þörfum markaðarins. Fyrirtækið leggur sig fram um að viðhalda traustu og góðu sambandi við viðskiptavini og reynir af fremsta megni að uppfylla þarfir þeirra og óskir. Tæknivæddar vinnslur gefa Vísi sveigjanleika til að mæta ólíkum kröfum viðskiptavina sinna. Skilvirkt gæðaeftirliti í gegnum allt ferlið skilar viðskiptavinum fjölbreyttum hágæðaafurðum allt árið um kring. Samhliða þessu hefur Vísir lagt aukna áherslu á gæðamál og árið 2018 hlaut fyrirtækið IFS vottun á gæðakerfi sitt.
Stærstu markaðir Vísis fyrir saltfisk eru Spánn, Ítalía og Grikkland. Ferskar og frystar afurðir eru að mestu fluttar til viðskiptavina í Evrópu og Norður-Ameríku þar sem flök og bitar eru framleiddir eftir þörfum þeirra og óskum. Nálægð Vísis við alþjóðaflugvöll og útflutningshöfn hefur gert fyrirtækið einstaklega hæft til framleiðslu og afhendingar á ferskum afurðum. Léttsaltaðar og lausfrystar afurðir hafa á síðustu árum þróast í að vera mikilvægur hluti af framleiðslunni og fara að stærstum hluta inn á hefðbundna saltfiskmarkaði.

Ábyrgð
Vísir leggur áherslu á ábyrga umgengni við auðlindir, umhverfismál og velferð starfsmanna. Fyrirtækið nýtir auðlindir landsins á sjálfbæran hátt með fullnýtingu, rekjanleika og umhverfisvitund. Vísir er aðili að Ábyrgum fiskveiðum (Iceland Responsible Fisheries) sem hlotið hefur vottun á íslenskum þorski, ýsu, ufsa og gullkarfa. Fyrirtækið er einnig með MSC vottun sem uppfyllir kröfur um rekjanleika sjávarafurða úr sjálfbærum fiskistofnum. Þannig er sýnt fram á, með gagnsæjum hætti, að staðið sé að fiskveiðum og fiskveiðistjórnun á Íslandi á ábyrgan og viðurkenndan hátt, í samræmi við kröfur Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu Þjóðanna, FAO.
Stefna fyrirtækisins er að lágmarka umhverfisáhrif starfseminnar og með sjálfvirkum skráningum á notkun auðlinda og aðfanga er unnið að því að minnka kolefnisfótspor fyrirtækisins. Stjórnendur Vísis eru meðvitaðir um að styrkur fyrirtækisins felist í mannauði þess og því er áhersla lögð á öryggi og velferð starfsmanna. Öryggisstefna félagsins hefur að markmiði slysalaust vinnuumhverfi, með virkri þátttöku og stuðningi stjórnenda og starfsmanna. Með jafnréttisstefnu Vísis er unnið að því að tryggja jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla og jöfn tækifæri einstaklinga, óháð kyni, kynhneigð, aldri, þjóðernisuppruna og stjórnmála- eða trúarskoðana.

Nýsköpun og framfarir
Vísi hefur lengi verið annt um að fullnýta hráefni sitt og hefur unnið markvisst að því að hámarka verðmæti þess. Árið 1999 stofnaði Vísir fyrirtækið Haustak hf., ásamt Þorbirni hf. í Grindavík. Haustak sérhæfir sig í þurrkun á ýmsum fiskafurðum og þangað sendir Vísir hefðbundar aukaafurðir eins og hausa og bein sem eru þurrkuð og seld til Nígeríu.
Árið 2012 stofnaði Vísir svo ásamt Þorbirni og Sjávarklasanum félagið Codland til að stuðla að framþróun í sjávarútvegi, með áherslu á samstarf. Með tilkomu Codland kom formlegur vettvangur til að hámarka nýtingu sjávarafurða og hvetja til umræðu og samstarfs sem skapar grundvöll að frekari þróun og auknu verðmæti afurða. Það samstarf hefur leitt til þess að stofnað hefur verið nýtt félag með fleiri aðilum og hefur það reist nýja verksmiðju í Grindavík sem framleiðir kollagen úr fiskroði. Á síðustu árum hafa orðið miklar framfarir í sjávarútvegi og hefur Vísir tekið virkan þátt í þeirri þróun. Árið 2018 hlaut fyrirtækið Þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga, fyrir að vera leiðandi í stafrænum lausnum og fyrir að hafa með nýsköpun í tækni bætt rekstrarumhverfi fyrirtækisins. Sagði í umsögn dómnefndar að Vísir hefði með innleiðingu stafrænna lausna náð hagræðingu í rekstri með virkri stýringu flotans, aukinni nýtingu og hærra hlutfalli af betur borgandi afurðum. Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, veitti verðlaununum viðtöku og var að vonum ánægður með viðurkenninguna: „Þetta er góð viðurkenning fyrir þá vinnu sem starfsfólk okkar hefur unnið síðasta áratuginn og mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut.“

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd