VÖK Baths

2022

Hugmynd verður að veruleika
Vök Baths opnaði 26. júlí árið 2019 en staðurinn á sér töluvert langa forsögu. Fyrsta hugmynd að ylströnd við Urriðavatn kom frá þáverandi hitaveitustjóra, Guðmundi Davíðssyni árið 1999. Hugmyndin var síðan tekin upp af nokkrum heimamönnum mörgum árum síðar og útfærð í takt við nýja tíma. Úr varð Vök Baths, stórglæsileg vin á bökkum Urriðavatns sem íbúar Austurlands og ferðamenn hafa tekið fagnandi.

Nafnið Vök Baths
Vök Baths dregur nafn sitt af heitum vökum sem birtust reglulega á ísi lögðu Urriðavatninu vegna jarðhita sem streymdi upp á yfirborðið. Vakirnar urðu uppspretta alls skyns þjóðsagna, en Lagarfljótsormurinn var talinn eiga leið úr Lagarfljóti í Urriðavatn og myndaði holur í ísinn með kryppunni. Kynjaskepnan Tuska var einnig talin eiga bústað í Urriðavatni og braut sér leið upp á yfirborðið í gengum vakirnar á veturnar. Vakirnar á Urriðavatni gengu lengi undir nafninu Tuskuvakir vegna Tusku en sumir telja að nafnið hafi komið til þegar heitu vakirnar voru notaðar til þvotta yfir vetrartímann þegar erfitt var að komast í vatn.

Fljótandi laugar – þær einu sinnar tegundar á Íslandi
Sérstaða Vök Baths eru „Vakirnar“, tvær fljótandi laugar sem liggja úti í Urriðavatni. Vakirnar eru þær einu sinnar tegundar á Íslandi og voru hannaðar í Finnlandi af Bluet sem sérhæfir sig í fljótandi lausnum. Gestir ganga af laugasvæði yfir brú til að komast í Vakirnar og stíga þar ofan í sannkallaða náttúruupplifun sem engu líkist. Úr Vökunum er svo greiður aðgangur út í Urriðavatn ef fólk vill taka kaldan sundsprett. Þess ber þó að geta að bað í Urriðavatni er á eigin ábyrgð gesta.

Hreinasta heita vatnið á Íslandi
Vatnið í laugum Vök Baths er jarðhitavatn úr borholum Urriðavatns. Vatnið hefur þá sérstöðu að það er eina heita vatnið á Íslandi sem er vottað drykkjarhæft. Það má því segja að Vök Baths bjóði upp á bað í hreinasta heita vatni landsins. Gestum býðst einnig að njóta heita vatnsins á tebar Vök Baths. Þar velja gestir sér lífrænar, handtíndar jurtir úr heimabyggð og skrúfa frá krana sem leiðir 72-75°C heitt og kristaltært vatn beint í bollann.

Náttúrulaugar og þörungamyndun
Vök Baths er hrein náttúrulaug. Enginn klór eða önnur eiturefni fara í laugarnar og er hreinleiki tryggður með miklu gegnumstreymi vatns. Hreinum náttúrulaugum fylgja þörungar og er þörungamyndun mest á vorin og sumrin þegar sólin er hæst á lofti. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæð áhrif þörunga, til að mynda nærandi og mýkjandi áhrif á húð.
Vök Bistro
Mælt er með að gestir Vök Baths, staldri við í Vök Bistro og leyfi braðlaukunum líka að njóta dvalarinnar. Salurinn er bjartur og opinn og tekur á móti gestum með fallegu útsýni yfir Urriðavatn. Daglega er boðið upp á ýmsa létta og ferska rétti, súpur, þeytinga og samlokur sem og fjölbreytt úrval af heimabökuðu brauði, pestó og hummus. Áhersla er lögð á lífrænt hráefni úr heimabyggð og breytist því matseðillinn reglulega yfir árið eftir því hvaða hráefni eru í boði hverju sinni.

Laugarbar Vök Baths
Laugarbar Vök Baths býður upp á úrval drykkja sem hægt er að njóta á meðan slakað er á í laugunum. Í samstarfi við austfirska bjórframleiðandann Austra Brugghús, voru þróaðir tveir einstaklega ljúffengir handverksbjórar sem kallast Vökvi og Vaka. Bjórarnir eru bruggaðir úr heita vatni Urriðavatns og er bætt í þá lífrænt ræktuðum afurðum frá Móður Jörð í Vallanesi, til að mynda sítrónumelissu og bankabyggi. Vökvi og Vaka eru til sölu á laugarbar og á Vök Bistro.

Aðstaðan
Mikið er lagt upp úr snyrtilegri og vandaðri aðstöðu fyrir gesti. Hönnun hússins var í höndum Basalt Arkitekta sem og innviðir sem hannaðir voru í samstarfi við Design Group Italia. Í búningsklefum eru góðar sturtur og læstir skápar og hægt er að leigja sundfatnað og handklæði í móttöku. Lokaðir sturtu- og búningsklefar eru í boði fyrir þá sem það vilja.
Aðstaða utandyra samanstendur af fjórum laugum, 37°C – 42°C gráðu heitum, gufubaði og köldum úðagöngum. Vakirnar tvær fljóta á Urriðavatni og eru þær heitastar. Tvær samliggjandi laugar liggja svo á bakka Urriðavatns og er önnur þeirra veitingalaug með laugarbar. Ekki má sleppa því að koma við í gufubaðinu en gufan og hitinn hjálpa öllum vöðvum líkamans að slaka á. Afar hressandi er að kæla sig í köldum úðagöngunum eftir gufubaðið.

Umhverfisvitund
Sjálfbærni og virðing fyrir umhverfinu er stór þáttur í starfsemi Vök Baths. Lögð er áhersla á endurvinnslu, lágmörkun úrgangs og lítið kolefnisfótspor með því að kaupa hráefni og þekkingu úr heimabyggð eins og mögulegt er. Til að mynda er allur viður fenginn innan úr Fljótsdal. Vök Baths leggur einnig áherslu á vernd náttúrunnar og var rauði þráðurinn í allri hönnun og uppbyggingu að viðhalda ósnortnu umhverfi Urriðavatns.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd