Vörður tryggingar á rætur að rekja til ársins 1926 þegar Vélbátasamtrygging Eyjafjarðar var stofnuð. Félagið var síðar nefnt Vélbátatrygging Eyjafjarðar GT en Vörður vátryggingafélag hf. frá árinu 1996. Árið 2004 sameinuðust Vörður og Íslandstrygging hf. og tók sameinað félag til starfa í ársbyrjun 2005 undir nafninu Vörður Íslandstrygging. Árið 2006 keyptu SP-Fjármögnun, Landsbankinn og BYR sparisjóður allt hlutafé félagsins og í kjölfarið var núverandi nafn tekið upp. Haustið 2009 keypti færeyski bankinn BankNordik ráðandi hlut í Verði og eignaðist félagið að fullu árið 2012. Haustið 2016 varð eignarhaldið að nýju íslenskt, þegar Arion banki varð nýr eigandi Varðar. Í ársbyrjun 2017 efldist Vörður til muna þegar félagið keypti OKKAR líftryggingar, sem var elsta starfandi líftryggingafélag landsins, og sameinaði við sinn rekstur. Úr varð Vörður líftryggingar sem er eitt stærsta félag sinnar tegundar á Íslandi.
Framsækið alhliða tryggingafélag
Vörður er alhliða tryggingafélag sem býður hagkvæmar tryggingalausnir á samkeppnishæfu verði fyrir einstaklinga, fjölskyldur og fyrirtæki. Félagið, sem leitast við að þjóna viðskiptavinum sínum á einfaldan, þægilegan og ekki síst persónulegan máta, býður allar tryggingar sem heimilin og fyrirtækin í landinu þurfa á að halda. Í starfsemi Varðar er lögð áhersla á hagkvæman rekstur sem byggir á nútímalegum þjónustu- og samskiptaleiðum. Tæknin er notuð til samskipta þegar það á við en þess er þó gætt að tækifæri til persónulegra samskipta séu ávallt til staðar.
Vörður einsetur sér að vera til fyrirmyndar í atvinnulífinu og tekur virkan þátt í að efla umhverfismál, félagslega þætti og ábyrga stjórnarhætti. Félagið hefur sett sér skýra stefnu um samfélagsábyrgð og sjálfbærni og styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Markvisst er unnið að því að auka umhverfisvæna þætti í allri starfseminni og draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið.
Vörður hefur jafnt og þétt styrkt stöðu sína á markaðnum en metnaður eigenda og starfsfólks er mikill og undirbýr félagið áframhaldandi sókn þar sem viðskiptavinurinn verður ávallt í öndvegi og hagsmunir hans hafðir að leiðarljósi. Viðskiptavinir Varðar eru liðlega 62.000 talsins.
Starfsfólk í fremstu röð
Hjá Verði starfar um 100 manna öflugur hópur fólks með fjölbreyttan bakgrunn og margskonar menntun, reynslu og hæfni. Félagið leggur mikla áherslu á vinnuumhverfið og menninguna og kappkostar að stuðla að almennri vellíðan, starfsánægju og góðum starfsanda sem skilar sér í úrvalsþjónustu til viðskiptavina. Vörður er líflegur og skemmtilegur vinnustaður með fjölskylduvæna og heilsueflandi mannauðsstefnu þar sem unnið er í anda jafnréttis og fjölbreytileika.
Stjórn, stjórnendur og starfsstöðvar
Stjórnarformaður Varðar trygginga hf. er Benedikt Olgeirsson. Aðrir í stjórn eru Guðný Benediktsdóttir og Ólafur Hrafn Höskuldsson.
Í stjórn Varðar líftrygginga er Benedikt Olgeirsson einnig formaður stjórnar en auk hans sitja í stjórninni Iða Brá Benediktsdóttir og Ingibjörg Arnarsdóttir.
Guðmundur Jóhann Jónsson er forstjóri Varðar. Aðrir helstu stjórnendur eru: Steinunn Hlíf Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri ráðgjafar og þjónustu, Sigurður Óli Kolbeinsson, framkvæmdastjóri tjóna og stofnstýringar, Helena Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála og tækni og Harpa Víðisdóttir mannauðsstjóri.
Aðsetur Varðar er í Borgartúni 25 í Reykjavík en félagið rekur jafnframt starfsstöðvar að Krossmóum 4 í Reykjanesbæ og á Glerártorgi á Akureyri.
www.vordur.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd