Vörubílastöðin Þróttur hf

2022

Vörubílastöðin Þróttur hf. er starfrækt af um það bil 70 vörubílstjórum, sem hver er eigandi að sinni bifreið og tilheyrandi tækjum. Fyrirtækið er í dag staðsett að Sævarhöfða 12 . Eftir stofnun, 9. apríl 1931, var fyrirtækið fyrst um sinn til húsa að Kalkofnsvegi en seinna var flutt á Rauðarárstíg, þaðan í Borgartún en loks að Sævarhöfða. Nú stendur til að breyta deiliskipulagi hjá borginni svo að búast má við að enn verði starfsemin flutt úr stað.

Sagan
Stofnun Vörubílstöðvarinnar Þróttar má rekja aftur til 1931 er vörubílstjórar í Reykjavík sameinuðust í einu stéttarfélagi og ákváðu um leið að reka sameiginlega eina vörubílastöð í Reykjavík. Saga Þróttar og félagatal áranna 1931 til 1987, skráð af Ingólfi Jónssyni frá Prestbakka, kom út í bókinni Maður og Bíll, sem var gefin út af félaginu árið 1987. Vörubílstjórafélagið Þróttur er elsta félag sinnar tegundar hérlendis og um leið hið langstærsta. Félagið er með starfsaðstöðu sína á tæplega þriggja hektara lóð við Sævarhöfða í Reykjavík, þar sem bílstjórar hafa aðstöðu fyrir tæki sín og tól. Starfsmenn eru aðeins fjórir.

Stjórn félagsins og starfsfólk
Stjórn Vbf. Þróttar er kosin árlega af félagsmönnum á aðalfundi Þróttar. Stjórn félagsins skipa: Helgi Ágústsson, formaður, Þórður Adolfsson, varaformaður, Knútur Kjartansson, ritari,
Kristján Ingason, gjaldkeri, Hreggviður L. Jónsson, varamaður og Sigurjón Valberg Jónsson, varamaður. Stefán Gestsson, framkvæmdastjóri, Þóra Skúladóttir, skrifstofustjóri, Margrét Guðfinnsdóttir, skrifstofa og Theodór H. Guðnasson, vélamaður.

Starfsemin
Vörubílastöðin Þróttur býður upp á fjölbreytta þjónustu. Þeir eru með vöru-, tank- og kranabíla til hinna ýmsu verka og sjá um flutning á efni til mannvirkjagerðar, flutning á vinnuskúrum og gámum. Eins sjá þeir um að flytja hráefni, aðföng og afurðir fyrir fyrirtæki í hinum ýmsu atvinnugreinum. Auk ýmis konar verktakavinnu þá veita þeir einnig garðyrkju- og jarðefnaþjónustu, allt frá því að afgreiða sand og grjót að fjarlægja tré og jarðveg úr görðum. Jafnframt eiga þeir í góðu samstarfi við fjölmarga aðila þegar kemur að verkum á sviði jarðvinnu, hvort sem verkin eru stór eða lítil.
Á starfstöð Þróttar Sævarhöfða 12 er hægt að fá afgreiddan sand, drenmöl, þakmöl og losna við jarðúrgang og múrbrot. Þróttur er í samstarfi við fjölmarga aðila sem taka að sér jafnt stærri sem smærri verk á sviði jarðvinnu. Vanti þig tilboð í grunn fyrir nýbyggingu eða tilboð í aðrar jarðvegsframkvædir hringdu þá í okkur og við útvegum tilboð hjá traustum aðilum.
Við bjóðum kranabíla með laus skjólborð og flatvagna til flutnings á öllum gerðum af byggingarefni og hverju því sem tekur að nefna. Við bjóðum tankbíla með heitu eða köldu vatni. Flytjum malbik bæði með vörubílum og trailerum.

Verkefnastaða, framtíðarsýn og samfélagsmál
Verkefnastaða félagsins er góð og frá árinu 2018 hefur velta aukist ár eftir ár. Því ekki ástæða til annars en að ætla að framtíðin sé björt. Þróttur auglýsir starfsemi sína aðallega á samfélagsmiðlum og styrkir mörg góðgerðarfélög reglulega.

Móttaka á jarðvegi
Á Sævarhöfða 12 tekur Þróttur á móti jarðvegi, hreinum múrbrotum, garðaúrgangi, ónýtum hellum og öðru sem má fara á tipp gegn gjaldi. Þróttur safnar þessu saman á athafnasvæði sínu og fer síðan með þetta á jarðvegstipp utan við höfuðborgarsvæðið. „Tippurinn” hjá okkur er mikið notaður af þeim sem eru að henda litlu magni í einu og spara þeir sér tíma með því að þurfa ekki að keyra langt út fyrir bæinn á tipp.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd