VSB verkfræðistofa

2022

VSB verkfræðistofa ehf. sinnir almennri verkfræðilegri ráðgjöf og faglegri þjónustu fyrir fyrirtæki, opinbera aðila og einstaklinga. Helstu viðfangsefni ná yfir hönnun bygginga og tæknikerfa þeirra, hönnun gatna- og lagnakerfa, framkvæmdaeftirlit og byggingastjórn, ráðgjöf við þróun verkefna, gerð útboðsgagna og áætlana. VSB verkfræðistofa hefur starfað eftir ISO9001 vottuðu gæðakerfi frá árinu 2011.

Upphaf stofunnar og nýr maður í brúnni
Aðdragandann að stofnun VSB verkfræðistofu má rekja til ársins 1987 þegar Stefán B. Veturliðason og Björn Gústafsson verkfræðingar stofna Verkfræðistofu Stefáns og Björns sf.  Fyrsta stóra verkefnið var byggingarstjórn við smíði ratsjárstöðvar á Bolafjalli við Ísafjarðardjúp. Árið 1996 var VSB verkfræðistofa ehf. stofnuð með eignaraðild VSÓ ráðgjafar ehf. og stóð það samstarf í tíu ár, eða til ársins 2006.
Stefán B. Veturliðason gegndi stöðu framkvæmdastjóra í 33 ár með hléum, en þann 1. apríl í ár lét hann af störfum sem framkvæmdastjóri og tók við af honum Hjörtur Sigurðsson, 36 ára verkfræðingur. Aðstoðarframkvæmdastjóri er Örn Guðmundsson, verkfræðingur.

Auður VSB verkfræðistofu
Fyrirtækið hefur frá stofnun haft aðsetur í Hafnarfirði og rekur starfsemi sína í vistlegu húsnæði á tveimur hæðum að Bæjarhrauni 20, auk þess sem útibú eru rekin í Reykjanesbæ og að Hafnartorgi í Reykjavík. Frá árinu 2012 hefur fyrirtækið átt miklum vexti að fagna og hefur starfsmannafjöldi nær þrefaldast á tímabilinu. Hjá VSB starfar í dag 37 manna hópur fagfólks á sínu sviði og er vinnustaðurinn orðlagður fyrir góðan starfsanda. Eigendur fyrirtækisins eru allir starfsmenn stofunnar og eru þeir 12 talsins.

Nýjungar í verklagi
Undanfarin ár hafa mörg skref verið tekin í tækniþróun og er það stefna fyrirtækisins að halda áfram á þeirri braut. Drónar eru nú notaðir við mælingar og myndatökur úr lofti, laserskannar eru notaðir til þess að fanga nákvæma mynd af ástandi mannvirkja og umhverfi þeirra. Spjaldtölvur og hugbúnaður á snjalltækjum eru notuð í daglegu eftirliti við úttektir og ástandsmat. Samskiptakerfi eru notuð til samskipta við meðhönnuði, sem og í samskiptum á milli starfsmanna VSB. Þá fer hönnun allra tæknikerfa bygginga öll fram í þrívíðu BIM umhverfi.

Framtíðin
Það er markmið VSB verkfræðistofu að halda áfram á sömu vaxtarbraut og undanfarin ár. Að bjóða starfsfólki sínu upp á spennandi starfsumhverfi og krefjandi viðfangsefni. Að efla starfsfólk stofunnar til nýrra og skemmtilegra verkefna sem og að hagnýta tækni til þess að geta skilað afurð í betri gæðum á réttum tíma.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd