Fyrirtækið var sofnað af Stefáni Ólafssyni byggingarverkfræðingi árið 1958 og er því ein elsta starfandi verkfræðistofa á landinu. Starfsmenn eru um 90 talsins, mikill meirihluti þeirra með háskólamenntun og kynjahlutföll nálgast jafnvægi. VSÓ hefur frá upphafi verið í eigu starfsmanna og undanfarna fjóra áratugi haft aðsetur við Borgartún 20 í Reykjavík. Í upphafi var hönnun burðarvirkja grunnur starfseminnar en þjónusta fyrirtækisins hefur þróast og vaxið jafnt og þétt í takt við þarfir samfélagsins og nú sinnir VSÓ alhliða ráðgjöf og verkfræðihönnun við hvers konar mannvirkjagerð. VSÓ rekur dótturfyrirtækið VSO Consulting AS í Noregi og hefur undanfarinn áratug sinnt þar fjölda verkefna, ekki síst hönnun fjölmargra skóla og hjúkrunarheimila. Þessi norsku verkefni hafa reynst mikilvæg stoð við sveiflukenndan heimamarkað á Íslandi og víkkað reynslu starfsmanna.
Viðskiptavinir stofunnar eru jafnt einkafyrirtæki sem opinberir aðilar og árlega sinnir VSÓ hundruðum verkefna
Samfélagslega mikilvæg verkefni
Borgarlínan er stærsta viðfangsefni í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins á komandi árum og þar hafa starfsmenn VSÓ unnið til þessa að mati á umhverfisáhrifum, umferðaröryggi, staðarvali og samgönguskipulagi. Stefnt er að því að árið 2040 muni 2/3 íbúa höfuðborgarsvæðisins búa í nálægð við góðar almenningssamgöngur. Því verði náð með uppbyggingu sérrýma fyrir stofnleiðanet hraðvagna samhliða þéttingu byggðar við stofnleiðir. VSÓ er einnig hluti af hönnunarhópnum Corpus3 sem hefur undanfarin ár unnið að hönnun tveggja helstu bygginga hins nýja Landspítala, Meðferðarkjarna og Rannsóknarhúss, sem alls eru um 85 þúsund fm2 Corpus3 er myndaður af hópi innlendra arkitekta- og verkfræðistofa auk erlendra sérfræðiráðgjafa. Meðferðarkjarninn sem er um 70 þús fm2 verður á
sex hæðum, auk 2ja hæða neðanjarðar, og óhætt að segja að hann sé eitt stærsta og flóknasta hönnunarverkefni sem ráðist hefur verið í hérlendis. Framkvæmdir eru hafnar og vonir standa til að spítalinn verði tekinn í notkun árið 2025.
Þjónusta VSÓ sem lýtur að umhverfis-málum og sjálfbærni er kynnt undir heitinu Græna leiðin og ljóst er að vaxandi áhersla verður á þessa þætti á komandi árum. Græna leiðin kemur nú þegar við sögu á öllum sviðum starfseminnar og á einn eða annan hátt við flest verkefni.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd