Würth á Íslandi ehf. var stofnað árið 1988 og hefur þar af leiðandi sinnt viðskiptavinum sínum í 33 ár. Fyrirtækið sérhæfir sig í gæðavörum fyrir iðnaðarmenn og er með um 10.000 vörutegundir á skrá hér á landi. Helstu framleiðsluvörur fyrirtækisins eru efnavara af ýmsum toga, s.s. límkítti, fituhreinsir og smurefni. Auk þess er boðið upp á breiða línu af vinnufatnaði, rafmagnsverkfærum, handverkfærum, festingum, rafmagnsvörum og fleira. Fyrirtækið hefur yfir að ráða þaulvönum og úrræðagóðum söluráðgjöfum sem eru ráðgefandi um faglegar lausnir á hverjum vöruflokki fyrir sig. Þegar Würth á Íslandi var stofnað árið 1988 einbeitti fyrirtækið sér eingöngu að þjónustu við bifreiðaverkstæði og málm- og timburiðnað, en með auknu umfangi bættust fleiri atvinnugreinar við.
Framkvæmdarstjóri Würth á Íslandi ehf. er Haraldur Leifsson.
Mannauður
Starfsmannafjöldi Würth á Íslandi í dag er 35 manns, þar af eru 17 söluráðgjafar sem heimsækja viðskiptavini sína um allt land, ekki sjaldnar en einu sinni í mánuði, suma tvisvar í viku eða eftir samkomulagi hvers og eins.
„Fagfólk velur Würth” eru kjörorð fyrirtækisins á Íslandi, en fyrirtækið leggur mikla rækt við að halda uppi háu gæða- og þjónustustigi með persónulegu tengslaneti. Söluráðgjafar fyrirtækisins nýta hvern dag í reglulegar heimsóknir til viðskiptavina þar sem ýmsar nýjar vörur eru jafnan kynntar, ráðleggingar veittar eða fyllt á þá vöru-flokka sem fyrir eru. Hver sölumaður er með um 70-150 fyrirtæki á sínum snærum sem telja um 10-15 heimsóknir á dag að meðaltali. Mikil áhersla er lögð á að afgreiða hverja pöntun eins fljótt og auðið er eða helst innan sólarhrings frá því að hún berst.
Faglegar kröfur eru gerðar til söluráðgjafa fyrirtækisins, en á sama hátt er lögð mikil áhersla á það að þeim líði vel í vinnunni og að starfsumhverfið sé notalegt.
Aðsetur
Fyrirtækið flutti höfuðstöðvar sínar árið 2016 úr Garðabæ í Norðlingaholt, Würth á Íslandi byggði sínar nýju höfuðstöðvar að Norðlingabraut 8, húsið er um 2.735 m² og þar til húsa eru skrifstofur, stór lager og verslun. Aðrar verslanir fyrirtækisins eru staðsettar að Bíldshöfða 16 í Reykjavík og Tryggvabraut 24 á Akureyri. Fyrirtækið er einnig með öfluga vefverslun sem er nokkuð ný af nálinni, þar getur þú skráð þig, séð allar vörur sem Würth á Íslandi býður upp á, auðvelt og einfalt er að panta og á opnunartíma fer pöntunin beint í tiltekt á lager og eins fljótt af stað úr húsi og auðið er.
Stefna
Viðskiptamódel Würth er nokkuð sérstætt. Á þessum bæ er algert grundvallaratriði að eiga fyrir hlutunum. Arðsemiskrafan er hófstillt frá hendi samsteypunnar og ekki er leyfilegt að taka einhverja sénsa í rekstrinum. Haraldur Leifsson, framkvæmdarstjóri Würth á Íslandi er í hópi með framkvæmdastjórum hjá Würth frá átta mismunandi löndum og hittast þeir á um það bil þriggja mánaða fresti. Þá er verið að fara yfir mál hvers lands fyrir sig, bera saman bækur og skoða hvað gengur vel og hvað síður, ef eitthvað er.
Vörur Würth
Vöruþróun er enn fremur snar þáttur í starfsemi Würth og sífellt er verið að þróa nýjar lausnir. Þúsundir nýrra vörunúmera eru kynntar á hverju ári og svo þarf að velja úr það sem hentar íslenskum markaði og aðstæðum. Skrúfa er til dæmis ekki það sama og skrúfa. Sumar þurfa átak og fyrirhöfn til að vera skrúfaðar í tré en aðrar geturðu skrúfað á sinn stað á augnabliki. Þetta sparar bæði tíma og afl. Það tekur í þegar þú þarft að skrúfa hundruð eða þúsundir af skrúfum í stóru verki. Sama er með kítti. Kíttið okkar er jafnan talið með betra kítti á markaðnum og það heldur einstaklega vel. Það lekur ekkert sem hefur verið kíttað með Würth-kítti. Það er kannski freistandi fyrir byggingaraðila að spara og kaupa ódýrt kítti fyrir gluggana í heilu fjölbýlishúsi. Sá sparnaður fer hins vegar fyrir lítið þegar þú þarft svo kannski að skipta út og laga alla gluggana. Þegar allt kemur til alls eru það gæðin sem gilda, og Würth berst ekki endilega á lágvöruverðsgrundvelli. Það er öll áhersla lögð á gæðin.
Bakgrunnur
Bakgrunnur Würth á Íslandi er sá að það er hluti af Würth samsteypunni sem er upprunalega þýsk og er með höfuðstöðvar sínar í Künzelsau í Þýskalandi. Fyrirtækið var stofnað þar árið 1945 af Adolf Würth, en um tíu árum síðar tók sonur hans Reinhold Würth við stjórnartaumunum, í dag sinnir Bettina Würth, dóttir Reinhold Würth daglegri stjórnun samsteypunnar. Reinhold Würth situr í dag í sem formaður stjórnar Würth grúppunnar.
Á heimsvísu eru rekin um 400 Würth fyrirtæki í 80 löndum, í öllum byggðum heimsálfum. Heildarstarfsmannafjöldi er um 78.000 manns sem telja hundruðir þúsunda heimsókna söluráðgjafa um allan heim, dag hvern. Tekjur samsteypunnar árið 2020 eru áætlaðar um 14,3 billjónir evra af 125.000 vörunúmerum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd