Ylur ehf

2022

Ylur ehf. er verktakafyrirtæki sem sérhæfir sig í jarðvegsframkvæmdum og starfar á
almennum útboðsmarkaði. Helstu verkefni eru vega- og gatnagerð, strenglagnir og efnisvinnsla ásamt allri almennri jarðvinnu. Ylur er með efnisvinnslu í eigin námu við Mýnes og við Litla-Bakka í Hróarstungu. Ylur sinnir auk þessa snjómokstri fyrir Fljótsdalshérað og sér um vetrarþjónustu á Fjarðarheiði en vegurinn er einn hæsti fjallvegur til þéttbýlis á landinu. Fyrirtækið býr að fjölbreyttum tækjakosti ásamt góðum mannauði sem býr að ára langri reynslu og kappkostar vönduð og góð vinnubrögð. Ylur ehf. á einnig dótturfélagið Stóruvík ehf. og rekur þar 6 sumarhús í ferðaþjónustu.

Upphafið
Fyrirtækið var stofnað á Egilsstöðum árið 1997 af bræðrunum Sigþóri Arnari, Sigurði og Halldóri Jóni Halldórssonum.  Upphaf og nafn fyrirtækisins er tilkomið vegna kaupa þeirra á tækjum Plastiðjunnar Yls hf. sem þeir fluttu frá Lagarbraut í Fellabæ í Tunghaga á Völlum til bráðabirgða. Fyrst um sinn var aðalstarfsemin framleiðsla á einangrunarplasti og var fyrirtækið eina sinnar tegundar á Austurlandi. Sala plastsins teygði sig þó víðar, enda var boðið uppá flutning á verkstað um land allt. Skortur á atvinnuhúsnæði á Egilsstöðum til að hýsa starfsemina leiddi til þess að þeir bræður réðust í byggingu á húsnæði að Miðási 7 á Egilsstöðum. Strax í byrjun framkvæmda var vart við mikinn áhuga á húsnæðinu og var það að endingu leigt til Húsasmiðjunnar og starfsemi Yls ehf. flutt að Miðási 18 þess í stað. Samhliða byggingu húsnæðisins eru keyptar vinnuvélar og hefst þá rekstur jarðvinnudeildar og verktöku við ýmsar byggingaframkvæmdir, gatnagerð og lagnir m.a. Árið 2007 byggir Ylur ehf. svo loks eigið atvinnuhúsnæði að Miðási 43-45, ásamt fjölmörgum öðrum byggingum á Fljótsdalshéraði.

Jarðvinna í 20 ár
Frá árinu 2016 er Sigþór Arnar Halldórsson eini eigandi Yls ehf. en hann hefur stýrt jarðvinnuverkefnum frá stofnun fyrirtækisins. Sigþór er rafveituvirki og kemur það sér vel í vinnu við lagningu jarðstrengja o.þ.h. Ylur ehf. hefur tekið að sér fjölbreytt verkefni um allt Austurland í gegnum tíðina. Meðal helstu verkefna má nefna frágang á öllu Kárahnjúkasvæðinu eftir virkjunarframkvæmdir Landsvirkjunar. Þar var gengið frá svæðinu eftir að vinnubúðir voru fjarlægðar og landið var mótað upp á nýtt. Yfirborðsfrágangur og lagnir við lengingar flugbrautar á Egilsstöðum, ásamt allri efnissölu. Fjölmörg verkefni hafa verið unnin fyrir Hitaveitu Egilsstaða og Fella, þar má nefna endurnýjun stofnlagna Urriðavatns-Barra og endurnýjun stofnlagna á Egilsstaðanesi. Unnin hafa verið verk fyrir Siglingamálastofnun þar má nefna Bryggja og Tunna á Borgarfirði eystra og sjóvarnargarður í Borgarfjarðarhöfn. Einnig hefur Ylur ehf. tekið að sér mörg viðamikil gatna- og vegagerðarverkefni í gegnum árin, þar má helst nefna gatnagerð og lagnir í nýju íbúðarhverfi á suðursvæði Fljótsdalshéraðs, endurbyggingu og styrkingu vega með bundnu slitlagi í Fljótsdal, Fellum, Hróarstungu og á Borgarfjarðarvegi. Síðustu ár hefur Ylur ehf. einnig tekið að sér verkefni fyrir Landsnetl, lagningu 132 kV jarðstrengs á Eskifirði, AUST 02 lagningu 66 kV jarðstrengs í Norðfjarðargöngum og nú er unnið að nýju verkefni, þ.e. AUST 02 NK2 Neskaupsstaðarlína – ES1Eskifjarðarlína.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd