Arkitektastofan Yrki var stofnuð árið 1997 af þeim Ásdísi Helgu Ágústsdóttur og Sólveigu Berg í kjölfar 1. verðlauna sem þær hlutu í hönnunarsamkeppni arkitekta fyrir Lækningaminjasafnið í Nesi á Seltjarnarnesi.
Í dag, rúmlega 20 árum síðar, starfar fjölbreyttur hópur hönnuða í arkitektúr, skipulagi og landslagsarkitektúr hjá fyrirtækinu og leggja Yrki arkitektar ríka áherslu á að mæta kröfum viðskiptavina sinna á faglegan og hagkvæman hátt.
Nafnið Yrki hefur sérstaka merkingu í íslensku. Að rækta og að yrkja. Nafnið vísar til sýnar stofunnar um að sameina hið jarðbundna og ljóðræna, að samtvinna ólíka þætti í allri hönnun. Hin fjölbreyttu verk stofunnar bera því gott vitni. Má þar nefna söluhúsin við Ægisgarð í Reykjavík, Sveinatungu – innanhússhönnun móttöku- og fundaraðstöðu bæjarskrifstofu Garðabæjar – og vigtarhúsið við höfnina í Þorlákshöfn, en þessi verkefni voru tilnefnd til alþjóðlegra verðlauna auk þess sem söluhúsin voru tilnefnd til hönnunarverðlauna Íslands árið 2021.
Önnur verk
Meðal annarra verka eru hjúkrunarheimili, íbúðir og þjónustumiðstöð aldraðra í Mörkinni, er hlutu verðlaun breska fagtímaritsins Build árið 2019, félagslegar íbúðir við Móaveg í Grafavogi, stúdentagarðar við Sæmundargötu og leik- og grunnskóli í Helgafellslandi í Mosfellsbæ. Árið 2021 hlutu Yrki arkitektar 1. verðlaun í arkitektasamkeppni um hönnun stækkunar á ráðhúsi Akureyrar. Lesendur eru hvattir til að kynna sér hin fjölbreyttu verkefni stofunnar á heimasíðu Yrki, yrki.is. Þess má geta að Lækningaminjasafnið í Nesi, er ýtti stofunni úr vör, mun von bráðar hýsa Náttúruminjasafn Íslands.
Samgöngu- og skipulagsmál, verkefni
Undanfarin ár hefur Yrki í auknum mæli unnið verkefni á sviði samgöngu- og skipulagsmála og unnið 1. verðlaun í samkeppnum á þessu sviði, s.s. skipulag nýrrar byggðar á Heklureit, í Borgartúni og ofan á Miklubrautastokk. Yrki er að auki hluti af alþjóðlegu teymi hönnuða sem vinna nú að hönnun Borgarlínu fyrir höfuðborgarsvæðið.
Vottanir
Yrki arkitektar eru fyrsta íslenska arkitektastofan sem hlýtur vottun fyrir gæðakerfi samkvæmt ISO 9001 staðlinum. Með því er unnt að tryggja gæði þeirrar þjónustu sem hún veitir, gera samskipti skilvirk og hafa eftirlit með allri hönnun og ráðgjöf.
Umhverfismál
Umhverfismálin hafa verið tekin föstum tökum, en á stofunni starfar sérfræðingur i svonefndu BREEAM NC og IRFO umhverfismati sem er alþjóðlegt matskerfi frá Bretlandi sem gerir úttekt og metur umhverfisleg gæði nýbygginga og endurnýjunar eldri bygginga.
Framtíðarsýn
Yrki stefnir fram á við í vegferð sinni í hönnun fjölbreyttra verkefna með trausta reynslu og nýjar hugmyndir að vopni, en góður hópur reyndra hönnuða og ungra starfar náið saman í hvetjandi umhverfi.
Yrki stendur traustum fótum sem viðurkennd og öflug arkitektastofa sem bíður áskorananna framtíðarinnar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd