Sögu Z-brauta & gluggatjalda má rekja aftur til 1964 þegar Theodór S. Marinósson hóf innflutning á þýskum gluggatjaldabrautum sem í daglegu tali kallast Z-brautir. Fyrirtækið hóf göngu sína í bílskúr við Rauðalæk og markaðssetning með því móti að Theodór bankaði upp á hjá nýbökuðum fasteignaeigendum með sýnishorn af gardínubrautum. Theodór var brautryðjandi á sínu sviði en fyrir þetta höfðu einungis tíðkast amerískar járnstangir og rimlagluggatjöld. Fyrsta verslun fyrirtækisins var opnuð árið 1966 í Síðumúla þar sem framleiddar voru gardínubrautir. Umfangið jókst með árunum og hófu Theodór og eiginkona hans, Magdalena S. Elíasdóttir, að flytja inn gluggatjaldaefni og þegar flutt var í húsnæði að Skúlagötu árið 1969 bættist gluggatjaldaverslun við. Árið 1975 opnuðu Z-brautir & gluggatjöld glæsilega verslun í Ármúla 42 þar sem fyrirtækið hafði svo aðsetur í 13 ár eða fram til ársins 1988 þegar fyrirtækið flutti í núverandi húsnæði að Faxafeni 14.
Eigendur
Árið 2016 urðu eigendaskipti á fyrirtækinu en þá tók dóttir þeirra Theodórs og Magdalenu, Guðrún Helga, við rekstri fyrirtækisins ásamt eiginmanni sínum, Jóni. Er fyrirtækið því enn fjölskyldurekstur.
Þjónusta
Z-brautir & gluggatjöld hafa í gegnum tíðina áunnið sér virðingarvert og gott orðspor fyrir einstaka þjónustu á sínu sviði. Boðið er upp á „heildarlausnir“ fyrir heimili og fyrirtæki. Dæmigert ferli slíkrar þjónustu gæti falist í því að senda tölvupóst og panta máltöku eða ráðgjöf. Að öðrum kosti getur viðskiptavinur komið í verslun og fengið ráðleggingar og svör við spurningum. Þegar viðskiptavinur hefur valið sína lausn er boðið upp á að þjónustuaðilar frá verslun komi á staðinn og mæli fyrir gardínum auk þess að bjóða upp á faglega ráðgjöf. Gluggatjöldin eru svo útbúin í húsnæði verslunarinnar, en öll framleiðsla fyrirtækisins er íslensk. Að lokum eru gluggatjöldin hengd upp hjá viðskiptavini ef þess er óskað.
Þegar kemur að heildarlausnum fyrir stærri aðila, þá hefur hin langa og sérhæfða reynsla fyrirtækisins komið að góðum notum. Þannig hafa Z-brautir & gluggatjöld haft hönd í bagga með gluggatjaldauppsetningum á fjölmörgum fyristækjum, s.s. hótelum, ríkisstofnunum, skólum o.s.frv. Í verslun Z-brauta & gluggatjalda er að finna gríðarlegt úrval af öllum tegundum gluggatjalda en helstu nýjungar síðustu ára eru rafdrifin gluggatjöld og hafa framfarir á þeim verið gríðarlegar síðustu ár.
Mannauður og framtíðin
Í Z-brautum & gluggatjöldum eru 17 starfsmenn sem samanstanda af sérhæfðu afgreiðslufólki, saumakonum og framleiðslufólki sem gerir fyrirtækinu kleift að halda framleiðslunni 100% íslenskri. Nýir eigendur horfa björtum augum á framtíðina eftir metár 2020 og stefna að því að einfalda afgreiðslumöguleika og lífga enn frekar upp á verslunarrými fyrirtækisins.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd