Arkitektastofan Zeppelín var stofnuð árið 1997 af Orra Árnasyni sem lærði arkitektúr í Madrid á Spáni. Stofan fagnar því 25 ára afmæli 2022. Verkefni stofunnar eru af öllu tagi og má nefna skóla, verksmiðjur, skrifstofubyggingar, fjölbýlishús, einbýlishús og parhús, veitingastaði og sumarbústaði. Þá hefur stofan tekið þátt í arkitektasamkeppnum og unnið til verðlauna. Auk þess hefur stofan unnið að eigin hugmyndum, ein sér eða í samvinnu við fjárfesta. Stefna stofunnar er einföld, eða sú að leysa hvert verkefni af kostgæfni í takti við umhverfi sitt, hvort heldur það er manngert eða náttúrulegt. Náttúruvættir og saga viðkomandi svæðis geta skipt máli og við höfum mikla ánægju af að vinna út frá slíkum hugmyndum, enda erum við þess fullviss að sögulegar skírskotanir bæti verkefni, geri þau áhugaverðari og veiti þeim aukna dýpt. Við skoðum sérstaklega samspil sólar, útsýnis og vinda með það fyrir augum að hanna sem mannvænastar byggingar og útisvæði. Eins reynum við að lesa kúnnann, en til að árangurinn verði góður skiptir höfuðmáli að það sé traust og gott samband á milli arkitekts og kúnna. Best útkoma fæst með því að nota aðferð gríska heimspekingsins Sókratess, að spyrja af lítillæti út í eitt, en þannig fást svör við öllu.
Sjálandsskóli í Garðabæ
Sjálandsskóli í Garðabæ er líklega þekktasta bygging stofunnar. Zeppelín arkitektar voru fengnir til verksins af Garðabæ sem stóð einstaklega myndarlega að öllum undirbúningi. Arkitektum var til að mynda bannað að stinga niður penna fyrr en að loknu viðamiklu undirbúningsferli hvers markmið var auk hefðbundinnar þarfagreiningar að að hreinsa huga viðkomandi af gömlum kreddum. Farið var í skoðunarferðir, m.a. til Danmerkur og haldnir voru fyrirlestrar af fræðimönnum um nýjustu hugmyndir í skólamálum. Á þessa fyrirlestra mættu bæjarfulltrúar, áhugasamir foreldrar og annað áhugafólk um skólamál. Að undirbúningstímanum loknum mátti loksins byrja að teikna, en þá hafði hugmyndum hlutaðeigandi um skóla verið umturnað. Aðferðafræðin hefur nýst stofunni í meira eða minna mæli allar götur síðan og m.a. við hönnun Skólamiðstöðvar á Fáskrúðsfirði og við stækkun og endurnýjun Grunnskóla Borgarness sem er nýlokið.
Reykir River Lagoon (lúxushótel og baðlón)
Zeppelín arkitektar vinna að frumhönnun allt að 200 herbergja hótels og baðlóns á Efri-Reykjum í Biskupstungum, á Gullna hringnum, við Brúará, einni fallegustu bergvatnsá landsins. Skipulagsferlinu er lokið og unnið er að fjármögnun verkefnisins.
Landið er flatt, en til hliða rísa fjöll og hæðir, eyjar. Fyrirhuguð bygging tekur mið af landinu, minnir á hlíð og myndar skjól fyrir vindum. Baðlónin verða í skjóli byggingarinnar, eins og tjarnir undir fjallshlíð. Þök verða grædd þeim gróðri sem fyrir er á svæðinu og útveggir verða viðarklæddir og vísa í gömlu torfbæina.
Hótel á Skerðingsstöðum (með Kirkjufell í huga)
Zeppelin arkitektar frumhanna einnig 80-100 herbergja hótel á jörðinni Skerðingsstöðum við Grundarfjörð. Hótelið mun rísa á tanga sem gengur út í Lárós, sem er manngert lón og liggur að Breiðafirði, fjöll allt um kring og Kirkjufell í forsæti. Form hótelbyggingarinnar minnir á Kirkjufellið, enda tók staðurinn völdin og byggingin varð til af sjálfu sér, en þannig verða bestu verkefnin til. Á vetrum leggur vatnið og þá er ýmist hægt að skauta á ísnum eða dorga í gegnum vök. Á sumrin er hægt að synda í vatninu eða fara út á bátum. Málið er á lokastigum í skipulagsferli.
Seglin við Pollinn (íbúða- og þjónustubyggingar)
Til stóð að byggingarnar myndu rísa aftan við Gránufélagshúsið á Akureyri. Gránufélagið stofnað árið 1870 hóf verslunarrekstur á Oddeyrinni, rak fjögur seglskip, tákn nýrra tíma, frelsis og framfara og sagði dönskum kaupmönnum stríð á hendur. Því var nærtækast í tillögusmíðinni og rómantískast, að leita fanga í sögu félagsins. Form bygginganna vísar í segl skipanna, en hver þeirra táknar eitt fjögurra skipa Gránufélagsins: Gránu, Rósu, Hertu og Njál. Þær áttu, auk þess að vera íbúða- og atvinnubyggingar, að vera minnisvarði um baráttuna fyrir frjálsri verslun, og Gránufélagið. Hafnarbakkinn framan við Gránufélagshúsið er eitt af hliðum Akureyrar. Farþegaskipin sem þar leggja að bryggju eru fjölmörg og farþegarnir skipta tugþúsundum. Aðkomu þeirra má verulega bæta og við sáum fyrir okkur að “seglin” tækju á móti farþegaskipunum og biðu þau velkomin.
Seglin við Pollinn er rómantísk sýn á skútuöld, starfsemi Gránufélagsins og baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands.
Ránargrund 4 (veitingastaður)
Garðabær bauð fram sjávarlóð undir veitingastað og skyldi keppt um lóðina, sem er á milli Sjálandsskóla, sem Zeppelín hannaði einnig og útivistarsvæðis sem enn á eftir að útfæra. Tillaga Zeppelin varð hlutskörpust. Markmiðið var að hanna byggingu hvaðan hægt væri að njóta kvöldsólarinnar og útsýnisins yfir til Álftaness og Snæfellsjökuls, en hvar jafnframt væri hægt að sitja úti og njóta sólar í skjóli fyrir köldum vindum. Staðurinn átti að vera viðkomustaður hjólandi og staður fyrir útitónleika og uppákomur allskonar.
Perlan (heilsulind)
Eitt það skemmtilegasta sem við gerum er að vinna í eigin hugmyndum og koma þeim á framfæri. Árið 2010 hönnuðum við heilsulind við Perluna í Reykjavík. Við teiknuðum hótelherbergi utan á heitavatnstankana og ofaná þá lögðum við heita laug sem hringaði glerkúpulinn og hvaðan gestir gátu séð alla Reykjavík og víðar.
Maríuborgir íÍbúða- og Þjónustubygging)
Annað hitaveitutankaverkefni sem Stofan hefur tekist á hendur er að umbreyta tönkunum á Grafarholti í Reykjavík sem gnæfa ógnvekjandi yfir aðliggjandi byggð. Við viljum breyta því svartholi í blómlega miðju, hjarta hverfisins. Leiðin sem við völdum var að byggja íbúðir og skrifstofur utan á tankana og almenningsrými ofaná þá. Öryggismálin vógu þungt og við lögðum á okkur mikla vinnu til að finna lausn á þeim.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd