Í Reykjavík, höfuðborg Íslands, bjuggu rúmlega 133.000 manns í árslok 2020. Á undanförnum áratug hefur geysimikil uppbygging átt sér stað í borginni, atvinnulíf er fjölbreytt og mannlífið fjölmenningarlegt. Yfirbragð borgarsamfélagsins í Reykjavík verður sífellt alþjóðlegra líkt og í öðrum borgum Norðurlanda. Reykjavík hefur fest sig í sessi sem lífsgæðaborg á heimsmælikvarða en hún var í fimmta sæti af 174 borgum árið 2019 samkvæmt mælikvörðum IESE.
Kópavogur er annað fjölmennasta sveitarfélag landsins á eftir Reykjavík en íbúar þess voru 1. janúar 2020 – 37.959 talsins. Bærinn nær frá ysta hluta Kársness austur undir jaðar Heiðmerkur og alla leið til Bláfjalla sem eru innan landamerkja Kópavogs.
Kópavogshreppur var stofnaður árið 1948 og voru íbúar þá um 900 en skömmu síðar eða árið 1955 hlaut Kópavogur svo kaupstaðarréttindi og nú búa hátt í 40.000 manns í Kópavogi.
Akureyrarbær er fjölmennasta sveitarfélag landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Í dag búa þar um 19.000 manns og teljast þar með allir íbúar Grímseyjar og Hríseyjar. Bærinn er á gróðursælum og skjólgóðum stað við vestanverðan botn Eyjafjarðar. Þar fellur Glerá til sjávar og hefur hún með tímanum rutt fram jarðefnum og myndað Oddeyrina, sem er eitt stærsta og grónasta hverfi bæjarins. Ágætar hafnaraðstæður eru við Pollinn á Akureyri en í hann fellur Eyjafjarðará með miklum óshólmum og leirum. Frá Pollinum rís snarbrött brekka í vesturátt, sem rofin er með lækjargiljum, stærst eru Búðargil og Grófargil og hafa myndast undan þeim litlar eyrar, Akureyrin og Torfunef. Þegar komið er upp á brekkubrún tekur við mikið flatlendi upp að fjallsrótum. Brekkan hverfur norðan Glerár og miðast nyrðri bæjarmörkin við Lónsá sem rennur úr Hlíðarfjalli.
Hið undurfagra ævintýri – Vestmannaeyjar
Um 10 km suður undan Landeyjasandi hringa sig um eða yfir 15 eyjar, auk skerja og dranga, „sem safírar greyptir í silfurhring“, eins og þjóðskáldið Einar Benediktsson orti. Heimaey er stærsta eyjan og sú eina sem byggð hefur verið, en hún er einnig stærsta eyja landsins. Syðsta eyjan, og útvörður Íslands í suðri, er Surtsey er reis úr hafi í neðansjávareldgosi 1963-1967 og er meðal yngstu eyja heimsins. Surtsey er friðlýst og hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO frá 2008.