Heimskreppa í alþjóðlegri ferðaþjónustu – Samtök ferðaþjónustunnar

Þórsmörk. / Ljósm. Gretar Örn Bragason.

Eitt af aðalsmerkjum ferðaþjónustu sem atvinnugreinar eru víðtæk óbein og afleidd áhrif hennar á aðrar atvinnugreinar. Hér á landi hefur hún auk þess verið mikilvæg fyrir hagkerfi margra minni sveitar- og bæjarfélaga. Það er hlutverk ferðaþjónustureikninga að draga fram árangur og hagsæld einstakra svæða í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að blása til sóknar í gerð reikninganna. Hugmyndafræðin er alþjóðleg, aðferðafræðin heildræn og í góðu samræmi við mat á afköstum hagkerfisins í heild, hagsæld á hvern íbúa og aðra mikilvæga reikninga eins og umhverfisreikninga. Heildrænir ferðaþjónustureikningar eru sá rammi og grunnur sem eðlilegt er að umræða og stefna um atvinnugreinina byggi á.

Heimsmarkmið

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru einnig vegvísir fyrir atvinnugreinina. Meðal forgangsmarkmiða stjórnvalda við innleiðingu er markmið 8 um viðvarandi sjálfbæran hagvöxt og arðbær og mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir alla. Undirmarkmið 8.9 er að eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapi störf og leggi áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur. Undir markmiði 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu er lögð áhersla á að ferðaþjónusta leiði af sér störf og ýti undir staðbundna menningu og framleiðslu. Undir markmiði 14 er lögð áhersla á efnahagslegan ávinning af sjálfbærri ferðaþjónustu.

COVID-19

Fáar þjóðir eiga jafn mikið undir greiðum samgöngum til og frá landinu og Íslendingar. Þannig eru farþegaflutningar með flugi hornsteinn fyrir áfangastaðinn Ísland. Hagsmunir fyrirtækja í ferðaþjónustu og farþegaflutningar til landsins eru samofin og verða ekki slitin í sundur. Það sama gildir um alþjóðlegt samstarf um bóluefni og bólusetninar. Stóra verkefnið er að skapa skilyrði til að hægt sé að aflétta sóttvarnaaðgerðum til að verðmætasköpun geti hafist á ný og samfélög komist í eðlilegt horf. Þar liggja stóru hagsmunirnir.
Áhrif sóttvarna vegna COVID-19 á farþegaflutninga um heiminn voru gríðarleg. Samkvæmt alþjóðasamtökum flugfélaga (International Air Transport Association (IATA)) náði alþjóðaflug, í heiminum, í apríl á síðasta ári (2020) sínum lægsta punkti í samtímasögu flugrekstrar þegar flugumferðin var um 2% af flugumferð í venjulegu árferði.
Þegar horft er til þess að um 60% af alþjóðlegum ferðamönnum á heimsvísu ferðast með flugi á milli landa koma áhrifin á ferðaþjónustu í heiminum ekki á óvart. Nú er gert ráð fyrir að tapið í flugrekstri 2020, á heimsvísu, verði um 150 milljarðar dollarar. Til að setja þá upphæð í eitthvert samhengi var tapið um 30 milljarðar dollara eftir árásina 11. september 2001. Auknir vöruflutningar milli landa fylla að einhverju leyti í skarðið en munu seint bæta tekjutap flugfélaga af samdrætti í farþegaflutningum.
Á Íslandi var staðan eins, algjört hrun varð í umferð um alþjóðlega flugvöllinn í Keflavík með tilheyrandi áfalli fyrir ferðaþjónustu og nærumhverfi atvinnulífsins á Reykjanesskaga. Nú bendir allt til þess að bandaríska flugfélagið Delta Air Lines muni hefja daglegt flug til Íslands og þriggja borga í Bandaríkjunum í maí næstkomandi. Auk Delta mun bandaríska flugfélagið United Airlines hefja flug frá Newark- flugvelli, sem er gríðarlega stórt markaðssvæði, í byrjun júní.
Alþjóðlegt farþegaflug um Keflavíkurflugvöll er mikilvægt fyrir flug- og ferðaþjónustu í landinu og nú þegar takmörkunum vegna COVID-19 hefur verið aflétt hefur straumurinn hingað til lands ekki verið meiri og enn bætir í eftir að eldgos hófst að nýju á Reykjanesskaganum. Ferðaþjónusta hefur verið mikill drifkraftur framfara á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár. Vægi höfuðborgarsvæðisins (+Reykjanesbær) er hátt. Stærstu hótelin og veitingastaðirnir eru í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum. Ef tekið er mið af upplýsingum um staðgreiðsluskyldar tekjur einstaklinga (sem launagreiðendur (fyrirtæki) greiða til starfsmanna er hlutfall Reykjavíkur í heildarlaunagreiðslum í rekstri veitinga- og gististaða yfir 40% og höfuðborgarsvæðisins um 70%.
Stærstu hótelin eru á höfuðborgarsvæðinu. Vægi þess í heildarfjölda (ekki verðmætum) gistinótta á hótelum hefur verið um 60% á undanförnum árum. Helstu viðskiptavinir fyrirtækja í hótelrekstri eru erlendir ferðamenn. Vægi þeirra í heildarfjölda gistinótta á höfuðborgarsvæðinu var um 93% á árinu 2019. Það kom því ekki á óvart að framboð á gistirými skyldi dragast snöggt saman í byrjun faraldurs þegar fyrirtæki ákváðu að fara í einhvers konar híði og bíða af sér ástandið.

Ábyrg ferðaþjónusta

Nú þegar viðspyrna íslenskrar ferðaþjónustu er hafin er mikilvægt að horfa til þeirrar framtíðar sem við viljum að atvinnugreinin skapi sér. Þá er ekki einungis mikilvægt að horfa til efnahagslegra þátta heldur einnig til umhverfis- og samfélagslegra. Loftslagsvandinn vofir ennþá yfir, hann er enn stór hnattræn áskorun.
Undir lok árs 2019 endurskrifaði nefnd SAF um samfélagsábyrgð stefnu samtakanna í umhverfismálum. Markmið stefnunnar er að fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi sjálfbæra nýtingu auðlinda og ábyrga stjórnarhætti að leiðarljósi. Stefna samtakanna er að vera partur af framtíðarsýn Sameinuðu þjóðanna sem birtast í heimsmarkmiðunum um sjáfbæra þróun. Innleiðing þeirra er í góðu samræmi við grunnþætti í stefnu SAF um framtíðarvöxt í ferðaþjónustu. Nefndin mun kynna stefnuna og fylgjast vel með framvindu markmiðanna, auk þess að leggja áherslu á að hvatar stjórnvalda séu í samræmi við þau. Jafnframt mun hún fræða og miðla upplýsingum til félagsmanna um þau verkefni sem eru í gangi. Helstu verkefnin sem eru í gangi núna er samstarfsverkefnið „Ábyrg ferðaþjónusta“ sem unnið er með Íslenska ferðaklasanum.

Verkefni og framtíðarsýn

Samtök ferðaþjónustunnar taka jafnframt þátt í ýmsum verkefnum á sviði samfélagsábyrgðar. Þau helstu eru loftslagsstefna atvinnulífsins, sem er samstarfsverkefni aðildarfélaga SA og Bændasamtaka Íslands, og verkefni um orkuskipti í samgöngum með áherslu á orkuskipti hjá bílaleigum.
Ísland er nú þegar leiðandi í ýmsum málaflokkum þegar kemur að samfélags- og umhverfismálum. Með samstilltu átaki íslenskrar ferðaþjónustu getur áfangastaðurinn Ísland einnig náð þeim árangri.
Aukinn hreyfanleiki um heiminn hefur skilað miklum efnahagslegum ávinningi fyrir stóran hluta íbúa heimsins. Lærdómur síðasta árs er að faraldrar og viðbrögð við þeim geta sannarlega sett strik í reikninginn í þeirri þróun.
Í nýrri skýrslu Deloitte (Building The Resilient Organization) kemur fram að stjórnendur fyrirtækja óttast að álíka faraldur og COVID-19 muni koma til með að skjóta upp kollinum öðru hverju í framtíðinni. Þá skipti máli að missa ekki sjónar á langtímamarkmiðum en vera jafnframt í stakk búin að mæta óvæntum áskorunum. Að mati stjórnenda víðs vegar um heiminn, þar á meðal íslenskra, eru fimm helstu eiginleikar þrautseigju í rekstri þessir; undirbúningur, aðlögunarhæfni, samvinna, traust og ábyrgð.
Á undanförnum árum hafa það verið þjónustuviðskipti á heimsvísu, heimshorna á milli, sem leitt hafa heimsviðskiptin. COVID-19 veikti þá þróun. Heimsfaraldurinn hratt af stað fjölbreyttum takmörkunum við landamæri til að hemja útbreiðslu faraldursins og það verður jafnvægislist að vega saman heilsufarsáhættu og opnun þeirra landamæra þar sem enn eru í gildi takmarkanir. Framundan er áfram langhlaup á mörgum sviðum en jafnframt kapphlaup um nýsköpun og bestu lausnirnar í harðri alþjóðlegri samkeppni.
Ferðaþjónustan á Íslandi þekkir flest veðrabrigði. Árið 2020 kom þó sannarlega á óvart og lærdómskúrfan var brött.
Á tímum breytinga þarf að hugsa upp nýjar lausnir og byggja upp nýja þekkingu byggða á reynslu, það er besta mótefnið til að samfélagið allt geti farið að færast átt til nýrra og betri tíma.

 

Þórsmörk. / Ljósm. Gretar Örn Bragason

Þórsmörk. / Ljósm. Gretar Örn Bragason

Aðrar greinar

Rafbílar – Jón Kristján Sigurðsson og Runólfur Ólafsson

desember 27, 2023
Lesa nánar
Hvað getum við lært um mótun lífeyriskerfa af alþjóðasamfélaginu? Málþing 2018. Frá vinstri: Þórey S. Þórðardóttir, Ásdís Eva Hannesdóttir, Elín Björg Jónsdóttir, Gylfi Arnbjörnsson, Hannes G. Sigurðsson, Ólafur Sigurðsson og Tómas Njáll Möller.

Landssamtök lífeyrissjóða – Þórey S. Þórðardóttir

desember 27, 2023
Lesa nánar

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd