Ávarp ritstjórans í tilefni af útgáfu Ísland 2020

 

Íslenskir atvinnuhættir og menning er safnrit í nokkrum bindum sem hefur þann tilgang að halda uppi eins og spegli fyrir atvinnu- og menningarlífi Íslendinga, tíð þeirra og aldarhætti svo rýna megi í hvað menn voru að sýsla og aðhafast. Ritið er á sama hátt heimild um þá þróun og nýsköpun sem hefur átt sér stað í atvinnulífinu á undanförnum árum og þannig fæst yfirlit og innsýn um hvernig eitt hefur áhrif á annað. Hvernig atvinnulífið blómstrar á ólíkum stöðum á landinu, hvaða hugsjónir búa að baki hjá þeim sem hrinda viðskiptahugmyndum í framkvæmd og hvernig þeir sem koma að stjórn lands, bæja og sveita vilja bæta umhverfi sitt og styðja við uppbyggingu stofnana og framgang smærri og stærri fyrirtækja.

Þetta ritsafn kemur út núna í fjórða skipti á jafnmörgum áratugum undir sama heiti. Ísland 2020. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því fyrsta ritið kom út árið 1990. Ég kom að útgáfunni sem við nefndum Ísland 2000 og svo aftur 2010. Ég fór í fjölmargar heimsóknir og átti áhugavert spjall við menn og konur og nú aftur 2020 erum við að marka nýjan áratug og breytingarnar eru stórkostlegar. Ekki einasta að tækninni hafi fleygt fram og umhverfisvitund Íslendinga hafi vaknað upp af dvala heldur sú merkilega staðreynd að í næstum heil tvö ár var samfélagið lamað svo að helst leit út fyrir að stórar hugmyndir og framkvæmdir myndu leggjast af, ferðamenn hætta að koma hingað og allt fara á hliðina. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ísland hefur risið upp úr öskustónni og þegar þessu riti er flett mun margt koma á óvart og heimildagildi ritsins ótvírætt hvað varðar viðbrögð þeirra sem áttu mikið undir sér þegar öllu var skellt í lás og hvernig á sama hátt þeim tókst með hugviti og útsjónarsemi að halda úti rekstri þrátt fyrir heimsfaraldur COVID-19.

Við útgáfu þessa verks þurfti mikla þrautseigju og þolinmæði. Margir vildu taka þátt og ég átti margar góðar stundir við að rekja garnirnar úr fólki til að fá bitastætt efni í greinar. Þegar ég náði að hitta fólk augliti til auglitis þá fór það gjarnan svo að samtalið teygðist upp í allt að tvo klukkutíma af því það var svo gaman.

Það má auðvitað spyrja sig hvað svona safnrit á að fyrirstilla á okkar stafrænu öld þar sem allar upplýsingar eru svo aðgengilegar. Því er til að svara að útgáfan horfir til framtíðar rétt eins og aðrir. Það er einhver dulin ást sem Íslendingar hafa á bókum og hin prentaða bók er langt því frá að vera búin að syngja sitt síðasta en við erum hvergi bangin við að halda uppteknum hætti og hyggjum á stafræna útgáfu þegar fram í sækir og ætlum okkur stóra hluti þar.

Ísland 2020 atvinnuhættir og menning er að líta dagsins ljós og vil ég nota tækifærið til að þakka öllum þann velvilja og áhuga sem sem þeir sýndu með þátttöku sinni og óeigingjarnri vinnu við að setja þetta verkefni á laggirnar. Það er ekki sjálfgefið að menn geti í dagsins amstri tekið frá tíma til að sinna slíku. Ég er þakklátur fyrir minn hlut í þessu verki og vona að þeir sem fá ritið í hendurnar megi njóta þess að fletta þessum síðum og gefi það áfram til að minnast þess sem vel hefur verið gert og geti verið stoltir af því að vera minnst á síðum þessara bóka. Þegar upp er staðið þá er ritsafnið prýðis góð heimild þótt ekki sé kafað mjög djúpt og ítarlega í viðfangsefnin en það gefur þó raunsanna mynd af því sem var að gerast og má vera að eitt og annað komi á óvart þegar grannt er skoðað.

Gangi okkur öllum vel að feta veginn áfram því það er þannig sem við viljum hafa það. „Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum munar annaðhvurt aftur á bak ellegar nokkuð á leið.“ (Jónas Hallgrímsson)

Það er margs að minnast og einkum þeirra sem hafa gengið á undan og ritstýrt þessu verki. Þeirra á meðal var Árni M. Emilsson sem ritstýrði útgáfunni 2010 ásamt Sturlu Böðvarssyni. Árni var ötull og afkastamikill og stóð heilshugar á bak við útgáfuna alla tíð. Hann átti margar ógleymanlegar stundir með forystufólki í atvinnulífinu og samstarfsfólki hjá Sagaz en ekki síður var hann prýðis góður penni og setti saman texta í bundnu máli þegar sá gállinn var á honum. Hann orti meðal annars þessar limrur:

Ísland, atvinnuhættir og menning
er næstum því heilög þrenning
og Stebbi og Matti
undir sama hatti
telja að þetta sé laukrétt kenning.

Ekki má af vegi sannleikans víkja
og það varðar við lög að svíkja
en hjá Árna og Braga
er allt önnur saga
þeir eiga svo gott með að ýkja.

Ófáar voru stundir Árna og Braga á ferð þeirra um landið þar sem menn hittust yfir kaffibolla og létu gamminn geysa. Hlátrasköllin dundu og margt var brallað; bæði skrafað og rætt, skipst á hugmyndum og sögum úr fortíðinni og pólitíkin fékk sinn skerf eins og alltaf.

Árna M. Emilssonar er minnst hér með þakklæti og virðingu fyrir sín störf í þágu Sagaz útgáfunnar sem hyggur á frekari strandhögg í framtíðinni.

Valgeir Skagfjörð

Aðrar greinar

Rafbílar – Jón Kristján Sigurðsson og Runólfur Ólafsson

desember 27, 2023
Lesa nánar
Hvað getum við lært um mótun lífeyriskerfa af alþjóðasamfélaginu? Málþing 2018. Frá vinstri: Þórey S. Þórðardóttir, Ásdís Eva Hannesdóttir, Elín Björg Jónsdóttir, Gylfi Arnbjörnsson, Hannes G. Sigurðsson, Ólafur Sigurðsson og Tómas Njáll Möller.

Landssamtök lífeyrissjóða – Þórey S. Þórðardóttir

desember 27, 2023
Lesa nánar

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd