Bókasöfn á Íslandi – eitt kerfi – Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir

Þjóðarbókhlaðan.

Á Íslandi eru starfrækt rúmlega 300 bókasöfn, stór og smá. Flest eru aðilar að bókasafnskerfinu Gegnir og leitarvélinni Leitir, en bæði kerfin eru rekin af Landskerfi bókasafna, sem er opinbert hlutafélag. Notendur geta leitað í safnkosti allra bókasafnanna eða einstakra safna. Bókasöfnin skiptast í nokkra flokka eftir því hvaða notendahópi þau þjóna og eru langflest á vegum opinberra aðila.
Forverar almenningsbókasafna voru lestrarfélögin, en það fyrsta var stofnað 1790. Lestrarfélögin voru frjáls félagasamtök fólks sem skaut saman fjármunum til að kaupa bækur, sem síðan gengu á milli félagsmanna. Þau urðu rúmlega 400 og störfuðu í lengri eða skemmri tíma. Á fyrri hluta 20. aldar var mörgum þeirra breytt í almenningsbókasöfn á vegum sveitarfélaga.
Árið 1937 voru sett lög um lestrarfélög og árið 1955 lög um almenningsbókasöfn. Þau lög voru endurskoðuð 1963, 1976 og 1997. Með nýjum bókasafnalögum nr. 150/2012 var tilgangurinn að efla starfsemi og samvinnu allra bókasafna á landinu, þannig að þau geti sem best gegnt því hlutverki sínu að vera þekkingarveitur og fræðslustofnanir. Þeim er einnig ætlað að halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sem flestum sviðum og tryggja jafnframt varðveislu þess menningararfs sem bókasöfnin hafa að geyma. Bókasafnalögin ná einnig yfir starfsemi Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Hljóðbókasafns Íslands, svo og háskólabókasafna, almenningsbókasafna, bókasafna framhalds- og grunnskóla, sérfræðibókasafna og bókasafna í stofnunum sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum, eftir því sem við á. Sérlög gilda einnig um Landsbókasafn – Háskólabókasafn nr. 142/2011, auk laga um skylduskil til safna nr. 20/2002.
Söfnin mynda sameiginlega bókasafnakerfi landsins. Þau skulu taka þátt í samstarfi bókasafna og safnkostur þeirra skal vera aðgengilegur eftir því sem við verður komið. Upplýsingar um safnkostinn skulu aðgengilegar öllum, og það er m.a. gert í gegnum bókasafnskerfin Gegnir og Leitir.

Bókasafnaráð

Skv. bókasafnalögum starfar bókasafnaráð sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna tilnefna hvort sinn fulltrúa í ráðið, Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, tilnefnir tvo fulltrúa ólíkra flokka bókasafna, og einn fulltrúi er skipaður án tilnefningar. Landsbókavörður og forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands sitja fundi bókasafnaráðs með málfrelsi og tillögurétt. Hlutverk ráðsins er að vinna að stefnumörkun um starfsemi bókasafna, að setja reglur um söfnun og úrvinnslu tölfræðiupplýsinga um bókasöfn á Íslandi sem ráðherra staðfestir, að setja bókasafnasjóði úthlutunarreglur, að veita umsögn um styrkumsóknir úr bókasafnasjóði og að sinna öðrum verkefnum á sviði málefna bókasafna samkvæmt nánari ákvörðun ráðherra

Menntun starfsfólks – kennsla við Háskóla Íslands

Fyrsti sérmenntaði íslenski bókavörðurinn var Sigurgeir Friðriksson, en hann stundaði nám í Danmörku 1920-21 og síðar í Bandaríkjunum. Hann varð bæjarbókavörður í Reykjavík að loknu námi. Nokkrir einstaklingar sóttu sér menntun og fræðslu erlendis á næstu áratugum, en kennsla í bókasafnsfræði (librarianship / library science) hófst við Háskóla Íslands árið 1956. Framan af voru fáir nemendur, en smám saman óx fræðigreininni fiskur um hrygg. Nokkrir erlendir sendikennarar komu til landsins, og settu mark sitt á kennsluna. Námið var upphaflega á BA stigi en árið 1993 var í fyrsta sinn boðið upp á meistaranám. Þá var tekin upp kennsla í skjalastjórn og nafninu breytt í bókasafns- og upplýsingafræði, en er nú upplýsingafræði og nær yfir bæði bókasöfn og skjalasöfn, auk margvíslegrar upplýsingastjórnunar. Árið 2007 hófst doktorsnám og fyrsti nemandinn útskrifaðist með doktorsgráðu árið 2013. Frá því ári hefur námið eingöngu verið á meistarastigi, bæði MA og MLIS, þannig að nemendur koma með ákveðna sérþekkingu inn í námið. Kennslan er nú að miklu leyti í fjarkennslu gegnum kennslukerfi Háskóla Íslands og auðveldar það nemendum á landsbyggðinni að stunda námið. Ýmis hagsmunafélög og hópar hafa verið stofnuð s.s. ókavarðafélag Íslands, Félag bókasafnsfræðinga og hópar eftir safnategundum. Nú geta allir sem starfa á bókasöfnum verið félagar í sameinuðu fagfélagi, Upplýsingu. Starfsfólk safnanna er síðan í mismunandi stéttarfélögum, s.s. Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU).

Tegundir bókasafna

Meginhlutverk bókasafna er að útvega fólki lesefni og upplýsingar á hvaða formi sem er, hvort sem það eru fagurbókmenntir eða fræðibækur og þar með upplýsingar um hin ýmsu málefni. Einnig er það hlutverk bókasafna að hvetja fólk til að meta efnið og að bjóða upp á hlutlaust rými, þar sem engar kröfur eru gerðar til gesta aðrar en tillitsemi við aðra.

Grunnskólar – skólasöfn

Í grunnskólalögum nr. 91/2008 er gert ráð fyrir skólasafni í öllum grunnskólum eða að tryggður sé aðgangur að þjónustu slíks safns, sem skal vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Skólasafnið skal búið safnkosti sem tengist námsgreinum og námssviðum aðalnámskrár grunnskóla. Áhersla er á lestur fagurbókmennta og í aðalnámsskrá hefur hugtakið læsi jafnframt verið víkkað út og tekur einnig til stafrænna samskipta s.s. stafræns læsis, miðlamenntar og miðlalæsis, sem upplýsingafræðingar nefna jafnan upplýsingalæsi. Í 24. gr. laganna, er lögð áhersla á margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni og safna- og heimildavinnu. Ekki hafa allir grunnskólar á landinu komið á fót skólasafni, en í nokkrum sveitarfélögum er öflugt samstarf eða samrekstur almennings og skólasafna. Gera má ráð fyrir að þegar sveitarfélögum fækkar og þau stækka, þá eflist slíkt samstarf.

Framhaldsskólar – framhaldsskólasöfn

Í öllum framhaldsskólum skal gera ráð fyrir skólasafni eða tryggja með öðrum hætti aðgang nemenda að þjónustu slíks safns skv. lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008. Hlutverk þeirra er að vera upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Þau skulu búin bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skóla. Í tengslum við starfsemi skólasafns í framhaldsskólum skal vera lesaðstaða með aðgangi að upplýsingaritum. Leggja skal áherslu á að þjálfa nemendur í sjálfstæðri leit upplýsinga og notkun gagnabanka. Skv. 10. gr. reglugerðar nr. 1100/2007 um starfslið og skipulag framhaldsskóla, skal yfirmaður skólasafns vera bókasafnsfræðingur, sem hefur umsjón með daglegum rekstri, bóka- og gagnakosti og lesrýmum.

Háskólar – háskólabókasöfn

Háskólabókasöfnin eru sjö talsins, eitt við hvern háskóla. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er bókasafn Háskóla Íslands skv. lögum nr. 142/2011. Háskólabókasöfn hafa með sér reglulegt samráð og vinna að mörgum sameiginlegum verkefnum, s.s. kaupum á rafrænu efni, fræðslu og rekstri gagnagrunnanna Skemman og Opin vísindi, fræðslu í upplýsingalæsi o.fl. Hlutverk safnanna er að veita sérhæfða þjónustu vegna kennslu, náms og rannsókna á sérsviðum skólanna. Með sumum þeirra starfa bókasafnsnefndir, en stjórn er hjá Landsbókasafni – Háskólabókasafni.

Almenningsbókasöfn

Hlutverk almenningsbókasafna er að vera menningar-, upplýsinga- og menntastofnanir og eru þau rekin af sveitarfélögum og skulu allir landsmenn eiga kost á þjónustu almenningsbókasafna, samkvæmt bókasafnalögum. Í 8. gr. laganna segir að fyrir hverju almenningsbókasafni skuli vera stjórn, kjörin af hlutaðeigandi sveitarstjórn eða sveitarstjórnum. Skipunartími stjórnar er hinn sami og kjörtímabil sveitarstjórnar. Sveitarstjórn er heimilt að skipa eina bókasafnsstjórn fyrir öll almenningsbókasöfn sem rekin eru af sveitarfélaginu eða fela fastanefnd samkvæmt samþykktum sveitarfélags að fara með málefni almenningsbókasafna. Stjórn bókasafns skal gæta þess að þar sé unnið í samræmi við lög og reglugerðir og eftir faglegum viðmiðunum á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Það er misjafnt hversu miklum fjármunum sveitarfélög verja til rekstur almennings- og skólasafna, en reynslan sýnir að því stærra og fjölmennara sem sveitarfélagið er, því öflugri eru bókasöfnin. Starfsemi flestra almenningsbókasafna hefur eflst mjög á undanförnum árum. Þau hafa tekið að sér margvíslega þjónustu við nærsamfélagið og menningarleg starfsemi þeirra hefur einnig aukist verulega. Flest almenningsbókasöfnin taka mið af þróun sem hefur orðið víða á Norðurlöndum, um að skapa hlutlaust rými, þar sem notandinn getur komið og dvalist á eigin forsendum og nýtt sér það sem stendur til boða. Í mörgum almenningsbókasöfnum fer fram öflugt barna og ungmennastarf og einnig fyrir eldri borgara. Almenningsbókasöfnin eru hluti af annarri menningar- og safnastarfsemi á vegum sveitarfélaga og vinna með öðrum stofnunum á þeirra vegum s.s. skólasöfnum, minjasöfnum, skjala- og ljósmyndasöfnum, svo fátt eitt sé nefnt. Þá skapa þau vettvang fyrir margvíslegar dagskrár og uppákomur á vegum sveitarfélaga, auk viðburðastjórnunar. Þar má nefna lestrarátök, menningardagskrár, tónlistarflutning, spila- og skákmót, dagskrár um héraðssögu, saumakvöld og lán á verkfærum og tækjum.
Engar kröfur gerðar til notenda sem koma í söfnin, nema góð samskipti og góð umgengni, bókasafnið hlutlaust svæði sem allir geta fært sér í nyt, hvort sem það er að glugga í bók, horfa á bíómynd, taka þátt í dagskrá, vera í tölvunni, hlusta, föndra, eða hitta aðra.

Rafbókasafnið

Rafbókasafnið er sameiginlegt kerfi fyrir almenningsbókasöfnin, rekið af Landskerfi bókasafna hf. og Borgarbókasafni Reykjavíkur. Rekstur þess hófst árið 2016. Þar geta notendur fengið að láni rafbækur og hljóðbækur, bæði erlendar og íslenskar, en rúmlega 60 almenningsbókasöfn eru aðilar að kerfinu.

Hljóðbókasafn Íslands

Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er skv. 15. gr. bóksafnalaga að sjá þeim, sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt, fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda. Hljóðbókasafn skal hafa samstarf við aðila sem standa að skipulagningu bókasafnamála, þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins. Safninu er heimilt að gera þjónustu og samstarfssamninga við slíka aðila og kostnaður við rekstur safnsins greiðist úr ríkissjóði. Hljóðbókasafnið miðlar skáldverkum, fræðiritum og öðru efni s.s. námsgögnum, til blindra og til þeirra sem eiga við lestrarörðugleika að etja. Safnið skal hafa samstarf við aðila sem standa að skipulagningu bókasafnsmála, þá sem vinna að framleiðslu og dreifingu námsefnis og þá sem starfa að málefnum blindra og sjónskertra og annarra hópa fatlaðra sem njóta þjónustu safnsins.

Sérfræði- og stofnanabókasöfn

Sérfræðisöfn og bókasöfn stofnana sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum skulu vera þekkingarmiðstöðvar á þeim sviðum sem þau eru helguð skv. 7. gr. bókasafnalaga. Undir þetta ákvæði falla einnig háskólabókasöfnin. Ýmsar opinberar stofnanir hafa sett á fót lítil sérfræðisöfn, með safnkosti á viðkomandi fræðasviði og sérstaklega stofnanir þar sem stundaðar eru rannsóknir. Þar má m.a. nefna Landspítala – Háskólasjúkrahús, Orkustofnun og Hafrannsóknastofnun. Safnkostur sem starfsfólk þessara stofnana þarf á að halda er að mestu orðinn rafrænn og aðgengilegur í gegnum tölvur, þannig að hlutverk þessara safna er að breytast og sum þeirra jafnvel verið lögð niður eða sameinuð öðrum á síðari árum.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er bæði þjóðbókasafn Íslendinga og bókasafn Háskóla Íslands. Það starfar skv. lögum nr. 142/2011 og er rannsóknarbókasafn og þekkingarveita fyrir alla landsmenn. Það sinnir virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sviði vísinda og fræða, stjórnsýslu og atvinnulífs og lista- og menningarmála. Samstarf við Háskóla Íslands byggir á sérstökum samstarfssamningi sem er endurskoðaður með reglubundnum hætti. Á síðari árum hefur safnið lagt áherslu á rafræna miðlun upplýsinga, m.a. með kaupum á erlendum gagnasöfnum og stafrænni endurgerð íslenskrar útgáfu. Safnið er skylduskilasafn skv. lögum um skylduskil til safna, og það fær 3-4 eintök af allri útgáfu í landinu, á hvaða formi sem er, s.s. bækur, blöð og tímarit, landakort, hljóðrit, kvikmyndir og verk á rafrænu formi. Safnið skal halda skrár um þessi verk og eru þær birtar í bókasafnskerfinu Gegnir og leitarvélinni Leitir. Tilgangurinn er að tryggja varðveislu og aðgengi að íslenskum menningararfi.
Þá eru í safninu ýmis sérsöfn s.s. handritasafn, kvennasögusafn, leikminjasafn, miðstöð munnlegar sögu og tónlistarsafn. Þau taka á móti margvíslegu efni sem tengist þeirra sérsviðum. Í húsi safnsins, Þjóðarbókhlöðunni, er aðstaða til rannsókna, lesturs og skoðunar, auk þess sem veitt er öflug upplýsingaþjónusta. Ennfremur rekur safnið verkefnið Landsaðgangur að rafrænum áskriftum, en þar eru keypt erlend gagnasöfn sem íslensk bókasöfn og stofnanir greiða fyrir, en þau eru opin á landsvísu.
Safnið rekur um 30 upplýsingavefi, smáa og stóra, og má þar nefna vefi með stafrænni endurgerð s.s. tímarit.is, bækur.is og hljóðsafn.is, upplýsingavefi s.s. leiðarvísasafn.is, skemman.is og opinn-aðgangur.is og sögulega vefi s.s. hallgrimurpetursson.is og jonarnason.is. Nýtt verkefni er varðveislusafnið IRIS (Icelandic Research Information System), sem verður vettvangur vísinda- og fræðafólks á Íslandi, og er ætlað að halda utan um rannsóknir og birtingar íslenskra vísindagreina.

Landskerfi bókasafna

Flest eru bókasöfnin aðilar að miðlæga bókasafnskerfinu Gegnir og leitarvélinni Leitir, sem eru rekin af Landskerfi bókasafna, en það er opinbert hlutafélag. Sameiginlegt bókasafnskerfi hefur sparað gífurlega vinnu á bókasöfnunum við kerfisrekstur og við skráningu og flokkun efnis í hverju safni. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn fer með gæðastjórnun á skráningarfærslum í Gegni, og söfnin tengja sitt efni við rétta skráningarfærslu, þannig að notandinn getur alltaf séð hvaða bókasöfn eiga viðkomandi efni. Starfsfólkið getur þá beint kröftum sínum að annarri þjónustu s.s. upplýsingagjöf, menningardagskrám og viðburðastjórnun.

Þjónustumiðstöð bókasafna

Þjónustumiðstöð bókasafna er sjálfseignarstofnun, en markmið hennar er að bæta bókasafnsþjónustu á Íslandi og styðja bókasöfnin í að gera lestur, upplýsingar, menntun og menningu aðgengilega almenningi. Fyrirtækið hefur sérhæft sig í bókasafnsbúnaði og húsgögnum og flytur inn margvíslega smávöru fyrir bókasöfnin.

Öll mynda þessi bókasöfn og stofnanir eitt kerfi fræða, menningar, þjónustu og upplifunar, og auðga þannig íslenskt samfélag.

 

 

 

Aðrar greinar

Rafbílar – Jón Kristján Sigurðsson og Runólfur Ólafsson

desember 27, 2023
Lesa nánar
Hvað getum við lært um mótun lífeyriskerfa af alþjóðasamfélaginu? Málþing 2018. Frá vinstri: Þórey S. Þórðardóttir, Ásdís Eva Hannesdóttir, Elín Björg Jónsdóttir, Gylfi Arnbjörnsson, Hannes G. Sigurðsson, Ólafur Sigurðsson og Tómas Njáll Möller.

Landssamtök lífeyrissjóða – Þórey S. Þórðardóttir

desember 27, 2023
Lesa nánar

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd