Samstarfsnefnd háskólastigsins er vettvangur samráðs og samstarfs íslenskra háskóla um sameiginleg málefni þeirra er varða starfsemi og hagsmuni háskólanna, s.s. gæðamál og fjármögnun háskólakerfisins, auk þess að veita umsagnir um mál sem háskóla-, iðnaðar – og nýsköpunarráðherra eða aðrir aðilar vísa til hennar. Ennfremur tilnefnir samstarfsnefnd háskólastigsins fulltrúa háskólasamfélagsins í fjölmargar nefndir og ráð.
Samstarfsnefnd háskólastigsins hefur starfað frá árinu 1990 og starfar nú skv. 26. gr. laga um háskóla nr. 63/2006.
Rektorar þeirra háskóla sem hafa fengið viðurkenningu ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, skipa samstarfsnefnd háskólastigsins. Nú sitja rektorar eftirtalinna háskóla í nefndinni: Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Listaháskóla Íslands og Háskólans á Bifröst.
Rektor Háskóla Íslands er fastur formaður nefndarinnar. Hann tilnefnir ritara (e. secretary general) nefndarinnar.
Starfsemin
Samstarfsnefnd háskólastigsins er vettvangur samráðs og samstarfs í þágu sameiginlegra markmiða um gæði háskólamenntunar og rannsókna og leitast við að samræma afstöðu háskólanna til mikilvægra málefna er varða æðri menntun og rannsóknir gagnvart ríkisstjórn, Alþingi, hagsmunaaðilum og almenningi.
Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir fulltrúa í nefndir og ráð skv. því sem fyrir er mælt í lögum og reglum eða eftir atvikum fyrir beiðni hlutaðeigandi stjórnvalda þar sem kallað er eftir fulltrúa háskólasamfélagsins.
Forsenda háskólastarfsemi er sjálfstæði háskóla og sjálfdæmi um eigin starfsemi, sbr. 2. gr. laga um háskóla nr. 63/2006. Samstarfsnefndin hefur frumkvæði af því að fjalla um, álykta eða veita umsagnir um málefni sem varða háskólana alla, svo sem um undirbúning fyrir háskólanám, gæðaviðmið og gæðaeftirlit með háskólastarfsemi, fjármögnun kennslu og rannsókna, inntak og framvindu Bolognaferlisins, verkaskiptingu, bókasafns- og upplýsingamál, lagafrumvörp sem snerta háskólastarfsemi og önnur þau málefni er nefndin telur nauðsynlegt að fjalla um og taka afstöðu til. Nefndin skipar starfshópa um einstök málefni eftir því sem þurfa þykir. Samstarfsnefnd háskólastigsins er aðili að Samtökum evrópskra háskóla, European University Association (EUA) og Samtökum norrænna háskóla (NUS), og tekur virkan þátt í starfsemi þessara samtaka, vinnuhópum og stefnumótun. Samstarfsnefnd háskólastigsins er með formennsku í NUS 2022-2024 og því í forsvari fyrir sameiginlega norræna stefnumörkun á sviði háskólamála.
©Kristinn Ingvarsson
Friðrika Harðardóttir, Vilhjálmur Egilsson Fríða Björk Ingvarsdóttir, Erla Björk Örnólfsdóttir, Eyjólfur Guðmundsson, Jón Atli Benediktsson, Ragnheiður Þórarinsdóttir, Ari Kristinn Jónsson.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, formaður
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri
Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum
Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík
Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst
Ritari samstarfsnefndar háskólastigsins er Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs Háskóla Íslands, en hún hefur sinnt starfinu frá ársbyrjun 2014.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd